„Jájá, það þýðir ekkert annað. Við tökumst bara á við þetta eins og annað. Þetta er alltaf spennandi. Það er ekki hægt að segja annað. Ég held að þetta sé fínasta staðsetning,“ segir Guðrún Kristín og nefnir að þetta sé fjær Grindavík en fyrra gosið fyrir rúmu ári, sem er gott. En verra sé að þetta sé nær Suðurstrandarveginum.
Ellubúð sló í gegn
Guðrún segir að tíminn muni leiða í ljós hvernig fer. „Já, nú er allt að gerast. Við erum að byrja uppá nýtt aftur.“
Fyrir rúmu ári ræddi Vísir við Guðrúnu Kristínu í tilefni af því að Þórkatla hafði komið upp við göngustíginn sem lá að gosstöðvunum við Fagradalsfjall sölugámi sem kallaðist Ellubúð. Þetta var kærkomin þjónusta við þá fjölmörgu sem lögðu leið sína að gosinu og í fjáröflunarskyni fyrir slysavarnadeildina sem nú hefur enn og aftur í mörg horn að líta. Guðrún Kristín segir ekki liggja fyrir hvort Ellubúð taki til starfa á ný.
„Við erum nú að undirbúa okkur í húsi björgunarsveitarinnar. Svo verður bara að koma í ljós hvað við gerum við Ellu. Það er aldrei að vita hvað við látum okkur detta í hug.“
Ellubúð var rekin í einn og hálfan mánuð en þá breytti gosið eilítið um stefnu og gönguleiðin lá ekki þar hjá. Ekki var hægt um vik að koma gámnum upp á nýjum stað þá.
„Þetta var hrikalega gaman og kannski látum við slag standa ef við höfum tíma og mannskap. Þetta tókst mjög vel og heill hellingur af fólki sem heimsótti okkur.“
Margir fegnir að farið sé að gjósa
Guðrún Kristín krossar sig þegar hún er spurð um hversu margir komu við í Ellubúð meðan hún var starfrækt.
„Guð minn góður, ég hef ekki hugmynd um það. En við reiknuðum út að það fóru tvöþúsund og fimm hundruð pylsur fyrir utan allt hitt, súkkuklagi og kaffi.“
Guðrún Kristín reiknar með því að nú fari strollan af stað aftur, hún býst jafnvel við því að ferðalangar sem eru áhugasamir um gosið fari af stað strax nú í dag. Hún segir það liggja fyrir að áhrif fyrra gossins hafa verið mikil á Grindavík þó erfitt sé að meta nákvæmlega hvernig en ljóst þó að verslun og þjónusta hafi rokið uppá við. Og Grindvíkingar láta sér hvergi bregða og eru jafnvel ánægðir með eldgosið.
„Ég held að það séu margir fegnir því að farið sé að gjósa og losna þá við jarðskjálftanna. Það var alveg komið gott með þá.“