Enski boltinn

Enska úrvalsdeildin mun reyna að skarast ekki á við HM kvenna

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Enska kvennalandsliðið vann sinn fyrsta Evrópumeistaratitil um helgina.
Enska kvennalandsliðið vann sinn fyrsta Evrópumeistaratitil um helgina. Thor Wegner/DeFodi Images via Getty Images

Nú þegar Evrópumeistaramóti kvenna í knattspyrnu er lokið eru forráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar karlameginn strax farnir að gera ráðstafanir fyrir heimsmeistaramót kvenna á næsta ári.

Evrópumeistaramót kvenna sem nú er nýlokið var stærsta kvennamót í knattspyrnu frá upphafi. Aldrei hafa fleiri áhorfendur fylgst með mótinu og hvert áhorfendametið á fætur öðru féll.

Heimsmeistaramót kvenna í knattspyrnu fer fram í Ástralíu og Nýja-Sjálandi á næsta ári, dagana 20. júlí til 20. ágúst. Mótið mun því skarast á við upphaf flestra af stærstu deildum heims í karlaboltanum, en Richard Masters, framkvæmdarstjóri ensku úrvalsdeildarinnar, segir að deildin muni reyna eftir fremsta megni að forðast árekstra við HM kvenna.

Tímamismunurinn mun þó sem betur fer sjá til þess að ansi ólíklegt er að leikir í ensku úrvalsdeildinni og HM kvenna fari fram á nákvæmlega sama tíma. Masters segir að það sé nánast útilokað að ekki verði leikið á sömu dögum, en að deildin muni reyna eftir fremsta megni að raða sínum leikjum sómasamlega niður.

„Við munum gera allt sem við getum svo að stóru viðburðirnir skarist ekki á. En dagatalið er mjög flókið og bundið erfiðum skorðum,“ sagði Masters. „Mótið var ótrúlega vel heppnað og núna er tími til að fagna.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.