Erlent

„Fjöldamorð á úkraínskum stríðsföngum“

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Frá minningarathöfn í Lviv í fyrra, þar sem þeirra sem dóu í sprengingunni í Olenivka var minnst.
Frá minningarathöfn í Lviv í fyrra, þar sem þeirra sem dóu í sprengingunni í Olenivka var minnst. Getty/Mykola

Rússar og Úkraínumenn saka hvorir aðra um að hafa orðið fimmtíu manns að bana í sprengjuárás á stríðsfangelsi í Donetsk héraði. Úkraínuforseti kallar árásina stríðsglæp og kallar eftir rannsókn Sameinuðu þjóðanna og Rauða krossins. 

Fangelsið er í bænum Olenivka í Donetsk héraði sem er á valdi Rússa og var fangelsið ætlað til vistunar á úkraínskum hermönnum sem Rússar höfðu tekið höndum.

Varnarmálaráðuneyti Rússlands hefur haldið því fram að Úkraínumenn beri alfarið ábyrgðina á sprengjuárásunum og að í þeim hafi verið notast við flugskeyti frá Bandaríkjamönnum. Árásin sé svívirðileg ögrun.

Ráðuneytið lýsir því jafnframt að á meðal hinna látnu fanga séu liðsmenn Azov-herdeildarinnar sem varði Azov-stálverksmiðjuna í hafnarborginni Mariupol. Rússar hafa ítrekað haldið því fram að sú herdeild sé skipuð nýnasistum.

Nú hafa Úkraínumenn hins vegar kallað eftir rannsókn Sameinuðu þjóðanna og Rauða krossins á árásinni og vinnur Rauði krossinn nú að því að fá aðgang að rústum fangelsisins.

Í gær birtu sjónvarpsstöðvar í Rússlandi myndir af rústum fangelsins þar sem, á meðal bragga og ónýtra járnrúma, mátti greina mannslíkama.

Í ávarpi sínu kallaði Zelenzky Úkraínuforseti árásina kláran stríðsglæp. 

„Þetta var klár stríðsglæpur, framinn af ásetningi, fjöldamorð á úkraínskum stríðsföngum,“ sagði Zelensky.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×