Innlent

Ökumaðurinn lést í slysinu við Hvalfjarðargöng

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Bílveltan átti sér stað norðan Hvalfjarðargangna.
Bílveltan átti sér stað norðan Hvalfjarðargangna. Vísir/Vilhelm

Karlmaður lést í bílslysi sem varð fyrir utan Hvalfjarðargöng um hálf átta í gærkvöldi. Að sögn vitna keyrði maðurinn á ofsahraða út af vegi og kastaðist úr bílnum.

Ásmundur Kristinn Ásmundsson, settur lögreglustjóri á Vesturlandi, staðfestir þetta í samtali við Vísi. Hann segir lögreglu hafa fengið tilkynningu um rásandi aksturslag á bifreið sem var á leið í Hvalfjarðargöngin. Lögreglumenn mættu bílnum á Akrafjallsvegi, þar sem bíllinn keyrði í átt að Akranesi, og ætluðu sér að snúa við til að kanna ástand ökumanns og réttindi.

„Þegar þeir snúa við, sjá þeir að bíllinn hefur aukið hraðann verulega. Þeir keyra í átt að ökumanni en að sögn vitna keyrði hann fram úr strætisvagni og vitni í strætisvagninum segja að bíllinn hafi verið í ógnarhraða. Þegar hann fer framhjá strætisvagninum virðist hann missa stjórn á bílnum og endar utan vegar.“

Lögreglumenn hafi hins vegar ekki séð bílveltuna þar sem þeir hafi verið svo langt frá bílnum. Ökumaðurinn hafi verið einn í bílnum en að öðru leyti segir Ásmundur að ekki sé vitað hve hratt maðurinn ók, né hvort hann hafi verið undir áhrifum vímuefna. 

„Málið er í rannsókn en við getum staðfest að maðurinn lést.“

Þá hafa allir farþegar strætisvagnsins hlotið áfallahjálp á sjúkrahúsinu á Akranesi.

Lögreglan sendi frá sér tilkynningu fyrir skömmu vegna málsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×