Innlent

Níu greinst með apa­bólu og það styttist í bólu­setningu

Bjarki Sigurðsson og Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifa
Þórólfur Guðnason er sóttvarnarlæknir Íslands.
Þórólfur Guðnason er sóttvarnarlæknir Íslands. Vísir

Alls hafa níu manns greinst með apabólu hér á landi. Þeir smituðu eru karlmenn á miðjum aldri, helmingur þeirra er með tengsl við útlönd og helmingur ekki.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir í samtali við fréttastofu að níu manns hafi greinst smitaðir af apabólunni á Íslandi. Búið er að tilgreina nokkra áhættuhópa og verið er að fara að bjóða þeim í bólusetningu.

„Það er komin nokkuð góð mynd á hættuna. Það er hægt að finna það nokkurn veginn. Það verður byrjað á því hér eins og flestir eru að gera, að bjóða þeim sem eru á fyrirbyggjandi meðferð við HIV. Við getum ekki boðið öllum núna. Við erum að fá fjörutíu skammta frá Danmörku og síðan fáum við vonandi fleiri skammta og þá er hægt að gefa í,“ segir Þórólfur.

Apabólan er í töluverðri uppsveiflu í Evrópu og hafa verið einhverjar spítalainnlagnir þar. Þeir smituðu hér á landi hafa hins vegar ekki veikst alvarlega og enginn hefur þurft að leggjast inn á spítala.

„Flestir eru bara með þessi sár á líkamanum og eitlastækkanir, jafnvel hita og verki. Síðan geta komið önnur smit og sýkingar ofan í þessi sár sem geta valdið talsverðum vandræðum. Það er svona helsta ástæðan fyrir innlögnum í öðrum löndum, það eru svona bakteríusýkingar sem koma ofan í þetta og miklir verkir,“ segir Þórólfur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×