Erlent

Fjór­tán létust í þyrlu­slysi þegar eitur­lyfja­barón var hand­tekinn

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Handtaka Rafael Caro Quintero reyndist dýrkeypt fyrir mexíkóska sjóherinn.
Handtaka Rafael Caro Quintero reyndist dýrkeypt fyrir mexíkóska sjóherinn. AP/Guillermo Juarez

Fjórtán hermenn mexíkóska sjóhersins létust þegar þyrla hrapaði til jarðar í kjölfar handtöku á eiturlyfjabaróninum Rafael Caro Quintero á föstudag. Hinn alræmdi Quintero hefur verið á lista FBI yfir tíu eftirlýstustu glæpamenn heims síðan 2018.

Í yfirlýsingu frá mexíkóska sjóhernum kemur fram að fótgönguliðar hersins hafi handtekið Quintero eftir að sjóhershundur fann hann í runna í bænum San Símon í ríkinu Sinaloa í norðvesturhluta Mexíkó.

Aðgerð hersins gekk þó ekki áfallalaust fyrir sig af því að í kjölfar handtökunnar á Quintero hrapaði Black Hawk þyrla hersins til jarðar í borginni Los Mochis með þeim afleiðingum að fjórtán létust og einn var fluttur særður á spítala. Ekki er vitað hvað olli slysinu.

Umfangsmikill og blóði drifinn glæpaferill 

Rafael Caro Quintero sem er 69 ára gamall er einn alræmdasti eiturlyfjabarón heims og er meðal annars gert að sök að hafa stofnað Guadalajara-glæpahringinn á áttunda áratugnum. Glæpahringurinn stóð fyrir umfangsmikilli ólöglegri verslun amfetamíns, heróíns, kókaíns og marijúana á áttunda og níunda áratugnum.

Quintero er jafnframt eftirlýstur af bandarískum yfirvöldum fyrir morðið á DEA-fulltrúanum Enrique Camarena Salazar árið 1985. Salazar var rænt af meðlimum Guadalajara-eiturlyfjahringsins sem pyntuðu hann og drápu. 

Plakat með myndum af Rafael Caro Quintero og upplýsingum um glæpi hans sem FBI notaði til að lýsa eftir honum.FBI/AP

Í kjölfarið var Quintero handtekinn og dæmdur í 40 ára fangelsi í Mexíkó fyrir morðið á Salazar. Hann hafði setið 28 ár í fangelsi þegar hæstiréttur Mexíkó sneri dómnum við árið 2013 vegna réttarfarslegs atriðis.

Að sögn FBI fór Quintero aftur út í ólöglega eiturlyfjasölu eftir að hann losnaði, nema þá fyrir Sinaloa-eiturlyfjahringinn. Árið 2018 setti FBI hann á lista yfir tíu eftirlýstustu glæpamenn heims og buðu tuttugu milljón dala verðlaun fyrir handtöku hans. Og nú hefur hann verið gómaður.

Merrick Garland, ríkissaksóknari Bandaríkjanna, sagði að Bandaríkin myndu krefjast framsals Quintero til Bandaríkjanna svo hann gæti farið fyrir dóm þar. 


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×