Erlent

Á­kærðir fyrir að selja stolna texta af Hotel Cali­fornia

Bjarki Sigurðsson skrifar
Don Henley (t.h.) er réttmætur eigandi textanna.
Don Henley (t.h.) er réttmætur eigandi textanna. Getty/Dave J Hogan

Þrír karlmenn hafa verið ákærðir fyrir að hafa selt handskrifaða texta Don Henley, söngvara Eagles, af lögum plötunnar Hotel California. Textunum var stolið á áttunda áratug síðustu aldar.

Enginn af mönnunum þremur, Glenn Horowitz, Craig Inciardi og Edward Kosninski, er þó grunaður um að hafa stolið textunum, heldur hafi þeir einungis keypt þá og reynt að selja þá áfram.

Samkvæmt fréttaveitu Reuters eru handskrifuðu textarnir metnir á yfir milljón dollara, tæplega 140 milljónir íslenskra króna, enda er platan Hotel California ein sú þekktasta í heiminum.

Talið er að annar, óþekktur, maður hafi stolið textunum og selt Horowitz þá sem síðan seldi þá áfram til Inciardi og Kosniski en allir þrír eru þeir miklir aðdáendur hljómsveitarinnar.

Uppgötvað var að textarnir væru í höndum Inciardi og Kosniski þegar þeir reyndu að selja þá á uppboði hjá uppboðshúsunum Christie‘s og Sotheby‘s. Hvorugt húsið vildi selja textana þannig þeir reyndu að fá Don Henley sjálfan til að kaupa textana sína. Það gekk ekki betur en svo að mennirnir þurfa að mæta fyrir dóm í Manhattan á næstu vikum. 

Hér fyrir neðan má hlusta á samnefnt lag af plötunni Hotel California.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×