Erlent

4.000 dýrum bjargað í „hundaverksmiðju“ í Bandaríkjunum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Yfirvöld og dýraverndarsamtök freista þess nú að finna heimili fyrir hundana.
Yfirvöld og dýraverndarsamtök freista þess nú að finna heimili fyrir hundana. Getty

Yfirvöld í Bandaríkjunum hafa bjargað 4.000 hundum í „hvolpaverksmiðju“ í Virginíu í kjölfar fjölda brota á lögum og reglum um dýravelferð. Þau hafa nú um tvo mánuði til að finna heimili fyrir dýrin.

Þegar eftirlitsmenn heimsóttu ræktunina í fyrra kom meðal annars í ljós að nærri 200 hundar höfðu verið aflífaðir með innspýtingu í hjartað, án þess að vera deyfðir eða svæfðir áður. Þá fundust dauðir, veikir og vannærðir hundar og 145 voru fjarlægðir þar sem þeir voru taldir verulega illa haldnir.

Yfirvöld fóru fram á að ræktuninni yrði lokað og í síðustu viku samþykkti dómstóll áætlun um björgun 4.000 dýra. Yfirvöld hafa nú um 60 daga til að finna þeim ný heimili en áður munu hundarnir fá bót meina sinna, verða geltir og bólusettir.

Fyrirtækið sem um ræðir, Envigo, ræktaði beagle-hunda til að selja lyfjafyrirtækjum og öðrum fyrirtækjum í rannsóknum. Forsvarsmenn þess sögðu í yfirlýsingu í júní síðastliðnum að starfsemin í Cumberland í Virginíu hefði ekki skilað nema einu prósenti af heildartekjum fyrirtækisins.

Dómsskjöl sýna að eftirlit leiddi oft í ljós að hundunum var haldið við afar bágar aðstæður og fundust dýrin meðal annars í uppsöfnuðum saur og matarafgöngum. Fleiri en 300 hvolpar voru sagðir hafa drepist af „óþekktum orsökum“ og þá var loftræstingu verulega ábótavant í eitt skiptið.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá New York Times.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×