Erlent

Ríkisstjórn Borisar sögð riða til falls eftir afsagnir

Samúel Karl Ólason skrifar
Sajid Javid, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Rishi Sunak, fyrrverandi fjármálaráðherra, og Boris Johnson, forsætisráðherra. Ríkisstjórn Johnsons er sögð riða til falls.
Sajid Javid, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Rishi Sunak, fyrrverandi fjármálaráðherra, og Boris Johnson, forsætisráðherra. Ríkisstjórn Johnsons er sögð riða til falls. AP/Toby Melville

Tveir háttsettir ráðherrar í ríkisstjórn Bretlands hafa sagt af sér í dag. Það er eftir sjónvarpsviðtal þar sem Boris Johnson, forsætisráðherra, viðurkenni að hann hefði ekki átt að skipa þingmann Íhaldsflokksins í stöðu aðstoðarþingflokksformanns, eftir að sá hafði verið sakaður um að káfa á tveimur mönnum.

Rishi Sunak, fjármálaráðherra, og Sajid Javid, heilbrigðisráðherra, sögðu báðir af sér seinni partinn í dag.

Áðurnefndur þingmaður heitir Chris Pincher. Hann var í síðustu viku sakaður um að káfa á tveimur mönnum en í kjölfarið hafa fregnir borist af fleiri ásökunum gegn honum á undanförnum árum. Þar á meðal ásakanir um að hann hafi brotið af sér þegar hann starfaði innan utanríkisráðuneyti Bretlands fyrir þremur árum, þegar Johnson var utanríkisráðherra.

Í frétt breska ríkisútvarpsins segir að Johnson hafi vitað af ásökunum þá. Þrátt fyrir það skipaði hann Pincher í embætti aðstoðarþingflokksformanns í febrúar.

Embætti forsætisráðherra hafði áður sagt að Johnson hefði ekki vitað af fyrri ásökunum gegn Pincher, en Johnson viðurkenndi það þó í viðtali í dag. Þá sagði hann að það hann hefði vitað af því. Pincher hefði beðist afsökunar á sínum tíma en Johnson sagði að hann hefði átt að vita að Pincher hefði ekki lært sína lexíu og myndi ekki breytast.

Johnson baðst svo afsökunar á því að hafa skipað Pincher í embætti aðstoðarþingflokksformanns.

BBC hefur eftir nánum bandamanni Johnsons að ríkisstjórn hans verði fallin á morgun. Enginn forsætisráðherra geti lifað afsagnir sem þessar af.

Sendu Boris tóninn

Sunak, sem er næst æðsti meðlimur ríkisstjórnar Bretlands, birti í dag afsagnarbréf sem hann sendi Johnson. Í því bréfi segist hann stoltur af störfum sínum í ríkisstjórninni og þakklátur Johnson fyrir tækifærið.

Sunak segir að hann sé ekki sammála Johnson varðandi þá erfiðleika sem ríkið standi frammi fyrir og hvernig stýra eigi Bretlandi í gegnum þann ólgusjó sem framundan er.

Javik birti afsagnarbréf sitt sömuleiðis og skýtur nokkrum skotum að Johnson. Í bréfinu segir hann að almenningur búist við heilindum frá ríkisstjórn Bretlands. Sá tónn sem Johnson hafi sett sem leiðtogi og þau gildi sem hann hafi í forgrunni, hafi áhrif á samstarfsmenn hans, flokksmeðlimi og ríkið allt.

Nú sé útlit fyrir að fólkið telji að ríkinu sé ekki stjórnað af heilindum.

Javki vísar til þess að vantrauststillaga sem lögð var fyrir þingið nýverið hafi sýnt fram á að margir meðlimir Íhaldsflokksins séu sammála. Það hafi verið tími fyrir auðmýkt og stefnubreytingu.

„Því miður er mér ljóst að ástandið mun ekki breytast undir þinni stjórn og þú hefur því einnig misst traust mitt,“ skrifaði Javik.


Tengdar fréttir

Siðaráðgjafi Johnson segir af sér

Ráðgjafi Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, í siðfræðilegum efnum sagði af sér í dag. Hann segir gildar spurningar enn á lofti um hvort að Johnson hafi brotið siðareglur með ítrekuðu veisluhaldi í kórónuveirufaraldrinum.

Hvergi nærri öruggur í em­bætti

Þrátt fyrir að þingflokkur Íhaldsflokksins hafi fellt vantrauststillögu á hendur Boris Johnson, forsætisráðherra og leiðtoga flokksins, í gær er Johnson hvergi nærri öruggur í embætti sínu að mati margra álitsgjafa BBC.

Felldu vantrauststillögu á hendur Boris Johnson

Þingflokkur Íhaldsflokksins felldi í dag vantrauststillögu á hendur Boris Johnson, forsætisráðherra og leiðtoga flokksins. 148 þingmenn greiddu atkvæði með tillögunni en 211 studdu formanninn, sem samsvarar einungis 59 prósentum þingmanna flokksins. 

Aðstoðarráðherra segir af sér vegna veislu­halda

Aðstoðarráðherra í dómsmálaráðuneyti Bretlands hefur ákveðið að segja af sér vegna veisluhalda í Downingstræti. Veisluhöldin voru haldin á meðan Covid faraldrinum stóð. Stjórnarandstæðingar hafa gagnrýnt veisluhöldin harðlega og krafist afsagnar forsætisráðherra og fjármálaráðherra.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.