Erlent

Lögreglan á Bretlandseyjum sektar 20 vegna partýstands í Downing-stræti

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Það þykir ólíklegt að Boris Johnson sé meðal þeirra sem fá sekt í fyrstu umferð.
Það þykir ólíklegt að Boris Johnson sé meðal þeirra sem fá sekt í fyrstu umferð. epa/Neil Hall

Lögregluyfirvöld á Bretlandseyjum munu sekta að minnsta kosti 20 einstaklinga vegna sóttvarnabrota þegar samkomur voru haldnar í Downing-stræti í miðjum kórónuveirufaraldrinum.

Þeir sem fá sektirnar verða ekki nafngreindir að sögn lögreglunnar en um sé að ræða tilvik þar sem málavextir liggja ljóst fyrir. Guardian segir því ólíklegt að Boris Johnson forsætisráðherra sé meðal þeirra sem verða sektaðir í fyrstu umferð, þar sem hann hefur neitað sök.

Lögreglan sagði í yfirlýsingu að enn ætti eftir að fara yfir talsvert magn gagna og að fleiri sektir yrðu gefnar út ef tilefni þætti til.

Til rannsóknar eru tólf viðburðir á árunum 2020 og 2021 en Johnson er sagður hafa verið viðstaddur sex þeirra. Meðal rannsóknargagna eru 300 ljósmyndir og 500 blaðsíður af gögnum.

Sue Gray, sem tók saman og birti bráðabirgðaskýrslu um partýstandið, mun ekki senda frá sér endanlega útgáfu fyrr en rannsókn lögreglu er lokið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×