Erlent

Skothríð í verslunarmiðstöð í Kaupmannahöfn

Magnús Jochum Pálsson og Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifa
Sjúkrabíll og vopnaðir lögreglumenn fyrir utan verslunarmiðstöðina Field's.
Sjúkrabíll og vopnaðir lögreglumenn fyrir utan verslunarmiðstöðina Field's. EPA-EFE/Olafur Steinar Gestsson

Skotmaður vopnaður haglabyssu hóf skothríð inni í verslunarmiðstöðinni Field's í Kaupmannahöfn upp úr sex að staðartíma í dag. Lögreglan segir að nokkrir séu látnir eftir árásina og nokkrir særðir. Þá hefur 22 ára danskur karlmaður verið handtekinn vegna málsins.

Samkvæmt fréttamiðlinum DR er stór lögregluaðgerð fyrir utan verslunarmiðstöðina Field's í Amager. Búið er að girða fyrir svæðið og fjöldi þungvopnaðra lögreglumanna standa fyrir utan verslunarmiðstöðina. Einnig hefur þyrla verið kölluð út sem flýgur nú yfir svæðið.

Nánar má lesa um skotárásina í vakt Vísis.

Heyrði af vopnuðum manni inni í verslunarmiðstöðinni

Að sögn íslenskrar stúlku, sem fréttastofa náði tali af en vildi ekki láta nafns síns getið, heyrðist skothríð inni í verslunarmiðstöðinni. Einnig bárust henni fregnir af því að það væri skotmaður vopnaður byssu á gangi um verslunarmiðstöðina.

„Ég er að fara á tónleika í Royal Arena við hliðina á Field's. Við heyrðum það sem hljómaði eins og sprengjur, ég veit ekki hvort það hafi bara verið krafturinn,“ sagði stúlkan í viðtali við fréttamann.

Hún segist vera búin að fá fréttir af því að það sé maður sem gangi um inni í verslunarmiðstöðinni vopnaður byssu og hann sé að skjóta á saklaust fólk en að fólk viti ekki hversu margir eru dánir.

„Það eru þyrlur í loftinu og lögreglubílar, sírenur og lögregluljós,“ sagði stúlkan.

Hún segir að fólk sé mjög hrætt enda óvissan mikil.

Fylgst verður með frekari tíðindum í Vaktinni hér á Vísi.


Tengdar fréttir

Vaktin: Skotárás í Kaupmannahöfn

Þrjú eru látin og þrjú eru í lífshættu eftir skotárás í verslunarmiðstöðinni Field's í Kaupmannahöfn. 22 ára danskur karlmaður hefur verið handtekinn vegna málsins.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.