Erlent

Þóttist vera fórnar­lamb og gæti hlotið dauða­refsingu

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Fjöldi farandverkamanna fannst í vörubílnum og höfðu flestir þeirra fallið í yfirlið vegna súrefnisleysis og sjóðandi hitans. Fjöldi fólks var úrskurðaður látinn á staðnum og er tala látinna nú orðinn 53.
Fjöldi farandverkamanna fannst í vörubílnum og höfðu flestir þeirra fallið í yfirlið vegna súrefnisleysis og sjóðandi hitans. Fjöldi fólks var úrskurðaður látinn á staðnum og er tala látinna nú orðinn 53. AP/Eric Gay

Vörubílstjóri sem keyrði vörubíl sem fannst yfirgefinn í Texas á mánudag með 53 látið farandfólk innanborðs segist ekki hafa vitað af bilaðri loftræstingu. Upphaflega faldi vörubílstjórinn sig nálægt vörubílnum og þóttist vera einn af farandfólkinu en var handtekinn stuttu síðar. Verði hann sakfelldur gæti hann hlotið dauðarefsingu.

Vörubíllinn fannst yfirgefinn á afskekktum vegi í San Antonio í Texas á mánudag en innan í honum voru rúmlega sextíu farandverkafólk. Stór hluti þeirra hafði fallið í yfirlið vegna súrefnisleysis og sjóðandi hitans og var fjöldi fólks úrskurðaður látinn á staðnum.

Syrgjendur heimsækja minnisvarða um hina látnu.AP/Eric Gay

Tala látinna er nú orðin 53, þar af eru nokkur börn. Einnig eru enn nokkur börn á spítala vegna áverka sem þau hlutu í vörubílnum.

Faldi sig og þóttist vera einn fórnarlambanna

Í frétt BBC um málið segir að skömmu eftir að vörubíllinn fannst á mánudag hafi lögreglan uppgötvað vörubílstjórann Homero Zamorano í felum í runna skammt frá vörubílnum.

Mexíkósk yfirvöld segja að hann hafi í fyrstu þóst vera einn af verkamönnunum en hafi síðan verið handtekinn eftir að eftirlitsmyndavélar sýndu hann keyra fram hjá landamæraeftirlitsstöð í Laredo í Texas.

Hinn 45 ára Zamorano og Christian Martínez, meintur vitorðsmaður hans, eru sakaðir um að hafa sent skilaboð sín á milli fyrir og eftir að trukkurinn fannst og þannig reynt að falsa vitnisburð sinn. Mennirnir tveir eru ákærðir fyrir smygl á fólki og samsæri. 

Fari svo að þeir verði sakfelldir gætu þeir hlotið dauðarefsingu.

Tveir aðrir menn, Juan Claudio D'Luna-Méndez og Francisco D'Luna-Bilbao, sem eru viðriðnir málið eru einnig ákærðir. Þeir eru sakaðir um ólögleg dvöl í Bandaríkjunum og fyrir ólöglegan vopnaburð.

Auðkenni fólksins enn á reiki

Mexíkósk yfirvöld segja 67 farandverkamenn hafa verið í vörubílnum en saksóknari San Antonio segir töluna fjöldann hins vegar vera 64. Meðal fórnarlambanna eru 27 einstaklingar frá Mexíkó, fjórtán frá Hondúras, sjö frá Gvatemala og tveir frá El Salvador. 

Réttarmeinafræðingur hjá Bexar-sýslu sagðist á föstudag vera búinn að auðkenna 53 fórnarlambanna með óyggjandi hætti.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.