Innlent

Dómarar ósáttir

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Kjartan Bjarni Björgvinsson er formaður Dómarafélags Íslands.
Kjartan Bjarni Björgvinsson er formaður Dómarafélags Íslands. Vísir/Vilhelm

Dómarafélag Íslands er ósátt við að kjör félagsmanna rýrni eftir að tilkynnt var um að laun helstu ráðamanna og embættismanna ríkisins hafi verið ofgreidd undanfarin þrjú ár. Formaður félagsins segir að dómarar muni leita réttar síns vegna málsins.

Tilkynnt var í dag að vegna þess að miðað hafi verið við vitlaust viðmið við útreikning árlegra launabreytinga helstu ráðamanna og embættismanna þjóðarinnar hafi þeir fengið ofgreidd laun undanfarin þrjú ár.

Reiknað er með að um alls hafi um 105 milljónir verið ofgreiddar til 260 einstaklinga. Gerð verður krafa um að ofgreiddu launin verði endurgreidd.

Dómarafélagið segir í yfirlýsingu sem birt er á Facebook-síðu Kjartans Bjarna Björgvinssonar, dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur og formann Dómarafélagsins, að í þessu felist einhliða og afturvirk skerðing á kjörum dómara.

Í samtali við Vísi segir Kjartan Bjarni að dómarar muni að óbreyttu leita réttars síns vegna málsins. Vísar hann í skýrt dómafordæmi um að launþegum beri ekki að endurgreiða ofgreidd laun hafi þeir þegið þau í góðri trú.

Í yfirlýsingu Dómarafélagsins segir einnig að verið sé að vega að rétti borgara til réttlátrar málsmeðferðar.

„Þessi aðgerð setur alla sem reka mál á hendur ríkinu í þá stöðu að eiga von á því að framkvæmdavaldið geti lækkað laun dómara eftir eigin geðþótta. Þar með eru borgararnir sviptir réttlátri málsmeðferð og því að geta borið mál sín undir sjálfstæðan og óvilhallan dómstól í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar og Mannréttindasáttmála Evrópu,“ skrifar Kjartan Bjarni á Facebook.


Yfirlýsing dómarafélagsins

Dómarafélag Íslands mótmælir harðlega ólögmætri ákvörðun fjármálaráðherra um einhliða og afturvirka skerðingu á kjörum dómara. Ákvörðunin er í andstöðu við gildandi lög um launakjör dómara og með henni er vegið að rétti borgaranna til réttlátrar málsmeðferðar fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstóli. Aðgerðirnar fela í sér atlögu framkvæmdavaldsins að dómsvaldinu sem ekki á sér hliðstæðu í íslenskri réttarsögu. 



Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×