Enski boltinn

Barcelona reynir að ræna Rap­hinha af Chelsea

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Raphinha í leik með Brasilíu.
Raphinha í leik með Brasilíu. Masashi Hara/Getty Images

Spænska knattspyrnufélagið Barcelona reynir hvað það getur til að fá Brasilíumanninn Raphinha í sínar raðir. Leikmaðurinn ku vera á leið frá Leeds United til Chelsea en Börsungar hafa ekki lagt árar í bát.

Hinn 25 ára gamli Raphinha var með sprækari mönnum hjá Leeds sem rétt bjargaði sér fyrir horn í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð. Eftir tvö góð ár hjá Leeds var ljóst að mörg af stærri liðum Evrópu myndu bera víurnar í leikmanninn.

Það rættist og nú virðist svo gott sem staðfest að brasilíski vængmaðurinn sé á leið til Chelsea. Það virðist sem Thomas Tuchel ætli sér að mæta með nýja framlínu til leiks í haust en ásamt Raphinha er Raheem Sterling orðaður við félagið og þá er Romelu Lukaku farinn aftur til Inter, nú á láni.

Börsungar eru einnig að reyna betrumbæta leikmannahóp sinn. Brasilíumenn hafa gert það gott með félaginu á undanförnum árum og vonast forráðmenn félagsins til að Raphinha bætist í þann hóp.

Það virðist sem Barcelona sé að reyna ræna Raphinha undan nefinu á Chelsea en sem stendur geta Börsungar ekki borgað sama verð og Chelsea. Þangað til það gerist þá mun Leeds virða samkomulagið við Chelsea.Talið er að Chelsea sé að borga 60 milljónir evra fyrir leikmanninn. Börsungar eru tilbúnir að jafna þá upphæð en töluvert af henni yrði í formi bónusgreiðslna, eitthvað sem Leeds tekur ekki í mál. Það virðist sem Barcelona heilli leikmanninn meira og hann vill ekki taka ákvörðun fyrr en það er öruggt að Barcelona hafi ekki efni á að fá hann í sínar raðir.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.