Erlent

Var í sam­bandi við öfga­mann sem boðaði dráp á sam­kyn­hneigðum

Kjartan Kjartansson skrifar
Mynd af brennandi regnbogafána sem Arfan Bhatti birti 14. júní. Hann er sagður lykilmaður í hreyfingu róttækra íslamista í Noregi.
Mynd af brennandi regnbogafána sem Arfan Bhatti birti 14. júní. Hann er sagður lykilmaður í hreyfingu róttækra íslamista í Noregi. Skjáskot/NRK

Maðurinn sem skaut tvo til bana og særði fleiri fyrir utan hinsegin bar í Osló í fyrrinótt var í sambandi við þekktan íslamskan öfgamann í Noregi. Sá boðaði fyrir skömmu dráp á samkynhneigðum á samfélagsmiðlum.

Arfan Bhatti er þekktur róttækur íslamisti í Noregi. Norska ríkisútvarpið NRK segist hafa heimildir fyrir því að árásarmaðurinn í Osló hafi verið í sambandi við Bhatti. Lögreglan rannsakar nú hvort að hann hafi verið í sambandi við fleiri öfgamenn.

Bhatti þessi birti mynd af brennandi regnbogafána, tákni hinsegin samfélagsins og tilvitnun þar sem kallað var eftir drápi á samkynhneigðum á samfélagsmiðlum 14. júní. Tilvitnunin er í svonefnda hadíðu úr íslam sem er grundvöllur dauðarefsinga við samkynhneigð í íslamstrú.

Lögreglan vildi ekki tjá sig um samfélagsmiðlafærslur Bhatti og leyniþjónustan PST ekki heldur. Lögmaður árásarmannsins hefur einnig varið Bhatti.

Árásarmaðurinn er 42 ára gamall norskur ríkisborgari en hann kom sem flóttamaður frá kúrdíska hluta Írans þegar hann var barn. PST hefur vitað af manninum um hríð vegna tengsla við öfgamenn. Lögreglan rannsakar árásina sem hryðjuverk.

Hann hefur einnig hlotið refsidóma, meðal annars fyrir líkamsrás og fíkniefnabrot. Hann var handtekinn í tengslum við manndráp fyrir nokkrum árum en ekki voru taldar nægar sannanir til þess að halda honum.

Fórnarlömb árásarinnar voru tveir karlmenn, annar á sextugsaldri en hinn á sjötugsaldri. Gleðigöngu sem átti að fara fram í Osló í gær var aflýst að ráði lögreglunnar.


Tengdar fréttir

Telja árásina hryðjuverk íslamista

Norska leyniþjónustan PST lítur á skotárás sem kostaði tvö mannslíf í miðborg Oslóar í nótt sem hryðjuverk öfgafulls íslamista. Viðbúnaðarstig vegna hryðjuverkahættu var hækkað í kjölfar árásarinnar.

Árásarmaðurinn áður komist í kast við lögin

Karlmaður á fimmtugsaldri sem er sakaður um morð, tilraun til manndráps og hryðjuverk með skotárás í miðborg Oslóar í nótt hefur ítrekað komist í kast við lögin. Tilgáta lögreglu er að hann hafi verið knúinn áfram af hatri.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.