Erlent

Vaknaði við þyrlur í Osló í nótt: „Mikill ó­­hugur í fólki“

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Jón Viðar býr í um 30 mínútna göngufæri frá miðbænum þar sem skotárásin átti sér stað. Hann segir götuna afar fjölfarna.
Jón Viðar býr í um 30 mínútna göngufæri frá miðbænum þar sem skotárásin átti sér stað. Hann segir götuna afar fjölfarna. facebook/ap

Ís­lendingur í Osló segir mikinn óhug í fólki eftir skot­á­rás sem gerð var á hin­segin skemmti­stað þar í nótt. Hann man ekki eftir öðru eins síðan að hryðju­verka­á­rásin í Útey og Osló var framin árið 2011 þar sem 69 létu lífið.

Tveir létust í á­rásinni í gær og eru fjór­tán særðir. Enginn þeirra er í lífs­hættu sam­kvæmt norskum fjöl­miðlum.

Á­rásin var gerð um klukkan eitt í nótt að staðar­tíma á skemmti­staðnum London Pub sem er vin­sæll meðal hin­segin fólks. Á­rásar­maðurinn var hand­tekinn á vett­vangi en hann er 42 ára norskur ríkis­borgari af írönskum upp­runa.

Norska lög­reglan segist þekkja til mannsins en ekki vegna stór­glæpa. Málið er rann­sakað sem hryðju­verk og telur lög­regla það hafa verið mark­mið mannsins að skapa ótta. Hald var lagt á skamm­byssu og sjálf­virkt skot­vopn.

Lík­legt er talið að skot­á­rásin tengist gleði­göngunni sem átti að fara fram í Osló í dag. Henni hefur nú verið frestað að ráðum lög­reglu.

„Hvort að þetta sé haturs­glæpur gagn­vart sam­kyn­hneigðum... það er ýmis­legt sem bendir til þess. Og kannski fyrst og fremst að lög­reglan ráð­lagði að gleði­gangan yrði ekki haldin í dag, henni var af­lýst. En annars er frétta­flutningur ó­ljós hvað þetta varðar,“ segir Jón Viðar Sigurðs­son, prófessor í forn­leifa­fræði við Há­skólann í Osló.

Hann er bú­settur í um hálf­tíma göngu­færi frá staðnum sem skot­á­rásin var gerð á.

„Ég vaknaði við þyrlur í nótt. Maður vaknar öðru hvoru við þær, lög­reglu­stöðin er náttúru­lega ekki langt frá okkur. Það var náttúru­lega allur mann­afli kallaður út í nótt og allt sett í við­bragðs­stöðu. Þar af leiðandi voru þyrlurnar settar upp,“ segir Jón Viðar.

Nýbúið að afhjúpa minnismerki um Útey

Hann man ekki til þess að nokkuð sam­bæri­legt hafi átt sér stað í Noregi frá hryðju­verka­á­rásinni í Útey.

„Það náttúru­lega setur óhug í lang­flesta. Það er ný­búin að vera af­hjúpun á minnis­merkinu í Útey. Þannig að maður er minntur á það sem gerðist þar,“ segir hann.

And­rúms­loftið hafi verið mjög þungt í morgun.

„Þetta er hlutur sem að maður reiknar ekki með að gerist hjá okkur. Fólk sem ég talaði við, það var bara mikill ó­hugur í því og fólki var brugðið,“ segir Jón Viðar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.