Innlent

Nettó-ræninginn handtekinn eftir eltingaleik

Kjartan Kjartansson skrifar
Eftirförinni lauk á gatnamótum við Smáralind.
Eftirförinni lauk á gatnamótum við Smáralind. Aðsend

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók mann sem réðst á kassastarfsmann og stal peningum úr verslun Nettó í Lágmúla eftir að hafa veitt honum eftirför í gærkvöldi. Ræninginn stakk af á bíl og ók meðal annars á aðra bíla og á móti umferð.

Tilkynnt var um ránið klukkan 19:36 í gærkvöldi. Í dagbók lögreglunnar kemur fram að ræninginn hafi ráðist á kassastarfsmann með ofbeldi og stolið peningum úr sjóðsvél. Fór hann svo af vettvangi í bifreið.

Skömmu síðar komu lögreglumenn auka á bifreiðina og veittu henni eftirför. Ræninginn ók utan í tvær bifreiðar í Kópavogi þar sem eftirförinni lauk en á leiðinni hafði hann ekið of hratt og á móti umferð. Engin slys á fólki voru skráð.

Auk ránsins er maðurinn grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna, ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum, vörslu fíkniefna og fleira. Hann var vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn málsins.

Starfsmaður Nettó sem Vísir ræddi við í gær sem var sjálfur ekki vitni að ráninu en sá framvindu þess í öryggismyndavélum, sagði að maðurinn hefði fyrst komið að kassanum og beðið um að fá að skipta fimmþúsund króna seðli í fimm þúsundkalla.

Maðurinn hefði síðan tekið upp á því að teygja sig yfir borðið og stinga höndinni ofan í kassann. Í kjölfarið hefði afgreiðslumaður reynt að stöðva manninn en ekki tekist það. Sló ræninginn til starfsmannsins. Ræninginn hljóp strax í kjölfarið upp í bíl og flúði af vettvangi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.