Erlent

Lysychansk síðasta vígi Úkraínu­manna í Luhansk

Árni Sæberg skrifar
Severodonetsk er fallin eftir linnulausar árásir Rússa á borgina síðustu vikur.
Severodonetsk er fallin eftir linnulausar árásir Rússa á borgina síðustu vikur. Rick Mave/Getty

Úkraínskir hermenn hafa hörfað frá borginni Severodonetsk í Luhansk-héraði. Nú er Lysychansk eina borgin í Luhansk sem Úkraínumenn ráða enn yfir. 

„Eftir að við drógum hersveitir okkar út er óvinurinn að safna saman liði sínu í Severodonetsk,“ segir í tilkynningu frá úkraínska hernum.

Severodonetsk var breytt í höfuðborg Luhanskhéraðs eftir að uppreisnarmenn með stuðningi Rússa náðu samnefndri höfuðborg Luhansk á sitt vald fljótlega eftir að átök um héraðið hófust árið 2014. Það er því mikið tilfinningalegt áfall fyrir Úkraínumenn að missa hana í hendur Rússa.

Rússar róa nú að því öllum árum að ná systurborginni Lysychansk og þar með stjórn alls Luhanskhéraðs.

Kyrylo Budanov, yfirmaður njósnadeildar úkraínska hersins, segir í samtali við Reuters að Úkraínumenn muni safna öllu herliði sínu frá Severodonetsk saman í Lysychansk. Þar sé betra umhverfi til að verjast ágangi Rússa.

Þá segir hann að Rússar beiti sömu aðferð í Luhansk og þeir beittu í Maríupol, að sprengja borgirnar af kortinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×