Erlent

Rússar létu sprengjum rigna yfir Luhansk

Árni Sæberg skrifar
Viðbragðsaðilar draga lík undan rústum í Lysychansk eftir loftárás Rússa þann 16. júní. Rússar hafa svo gott sem jafnað borgina við jörðu með loftárásum síðustu vikur.
Viðbragðsaðilar draga lík undan rústum í Lysychansk eftir loftárás Rússa þann 16. júní. Rússar hafa svo gott sem jafnað borgina við jörðu með loftárásum síðustu vikur. Efrem Lukatsky/AP

Rússar reyna nú eftir fremsta megni að ná borgunum Sieveródonetsk og Lysychansk í Luhanskhéraði á sitt vald. Þeir létu sprengjum rigna yfir borgirnar í morgun og hæfðu meðal annars efnaverksmiðju þar sem hundruð almennra borgara hafa leitað skjóls undanfarið.

„Það var gerð loftárás á Lysychansk og Sieveródonetsk varð fyrir stórskotaliðsárás,“ segir Serhiy Haidai, héraðsstjóri í Luhansk, á Telegram í dag.

Hann segir að Azot efnaverksmiðjan í Sieveródonetsk og þorpin Synetsky og Pavlograd hafi orðið fyrir barðinu á stórskotaliði Rússa.

Mikill fjöldi hermanna auk hundraða almennra borgara hafa leitað skjóls í Azot efnaverksmiðjunni frá því að Rússar hófu stórsókn á Sieveródonetsk. Íbúar borgarinnar voru um eitt hundrað þúsund fyrir innrás Rússa en nú eru aðeins um tíu þúsund eftir í borginni, að því er segir í frétt AP um málið.

Borgirnar tvær eru þær einu í Luhanskhéraði sem Rússar hafa ekki enn náð á sitt vald. Haidai sagði í fyrradag að til skoðunar væri að skipa hermönnum Úkraínu að hörfa frá Lysychansk til að koma í veg fyrir að þeir verði umkringdir her Rússa.

Rússar ráða einnig ríkjum í um helmingi Donetsk-héraðs, en saman mynda Donetsk og Luhansk Donbassvæðið, sem Rússar girnast mjög.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×