Sérsveit Ríkislögreglustjóra var kölluð út í gær þegar karlmaður á sjötugsaldri skaut á tvo bíla fyrir utan fjölbýlishús í Hafnarfirði sem hann býr í. Í öðrum þeirra var sex ára drengur ásamt pabba sínum en drengurinn var á leiðinni á leikskóla sem stendur við húsið. Umsátursástand var við húsið í nokkra klukkutíma en maðurinn gaf sig sjálfviljugur fram við lögreglu eftir samningaviðræður.
Maðurinn var handtekinn og í morgun leiddur fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjaness. Þar var hann úrskurðaður til vistunda á viðeigandi stofnun næstu fjórar vikurnar.
Fjöldi sérsveitarmanna tók þátt í aðgerðunum í gær. Tilfellum þar sem sérsveit hefur vopnast vegna skotvopna hefur fjölgað verulega á síðustu árum.
Árið 2016 gerðist það 27 sinnum en 87 sinnum á síðasta ári.

Þá er skotvopnaeigna töluverð hér á landi. Í byrjun ársins voru 76.680 skotvopn skráð í landinu. Inni í þessari tölu eru ekki skotvopn sem skráð eru á lögreglu eða á Landhelgisgæsluna. Skráðir eigendur vopna eru 36.548.
Lögreglan segir algengra en áður að skotvopn séu notuð.
„Heilt yfir vopnatilkynningar hvort sem það eru skotvopn, hnífur eða annað. Þeim hefur fjölgað svona verulega. Þróun sem við fylgjumst svona náið með,“ segir Runólfur Þórhallsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra.
Runólfur segir að þróunin sé sú að þeir sem hafi vopnin hiki síður en áður við að nota þau.
„Ef að við horfum kannski bara núna stutt aftur í tímann þá sjáum við til dæmis á Egilsstöðum, við sjáum atvikið þarna uppi í Grafarvogi þar sem að er ungt fólk í leigubíl. Maður niðri í miðbæ með þrívíddarskotvopn og svo þetta atvik núna nýskeð. Það eru sterkar vísbendingar um það að það sé svona minna hik við að beita skotvopnum á almannafæri. Það er svona sem að við verðum að fylgjast með náið með.“
„Það getur verið margskonar ástæða fyrir því. Það getur verið ef við horfum til skipulagðrar brotastarfsemi að menn séu að skapa sér stöðu innan þess heims með því að hóta að beita vopnum eða beinlínis að beita þeim. Þetta er svona heilt yfir þróun sem að við sjáum hér.“