Innlent

Byssumaðurinn vistaður á „viðeigandi stofnun“

Kjartan Kjartansson og Árni Sæberg skrifa
Sérsveitarmaður á vettvangi við Miðvang í Hafnarfirði í gær.
Sérsveitarmaður á vettvangi við Miðvang í Hafnarfirði í gær. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjaness úrskurðaði karlmann á sjötugsaldri sem var handtekinn fyrir að skjóta á bíla í Hafnarfirði í gær til vistunar á viðeigandi stofnun í fjórar vikur. Skotárásin er rannsökuð sem tilraun til manndráps.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Maðurinn er grunaður um að hafa skotið á tvær kyrrstæðar bifreiðar á milli blokkarinnar að Miðvangi 41 og leikskólans Víðivalla í gærmorgun. Önnur bifreiðin var mannlaus en í hinni sátu karlmaður og sex ára gamall sonur hans.

Mikill viðbúnaður var vegna skotárásarinnar og sátu vopnaðir sérsveitarmenn um íbúð mannsins í tæpar fjórar klukkustundir í gærmorgun. Umsátrinu lauk þegar maðurinn gaf sig sjálfviljugur fram um klukkan 12:20.

Vistun á viðeigandi stofnun er hliðstætt úrræði gæsluvarðhalds í lögum um meðferð sakamála. Öll skilyrði gæsluvarðhalds þurfa að vera fyrir hendi til að unnt sé að úrskurða sakborning í slíka vistun.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

„Ég var mjög hrædd og ótta­slegin“

Berglind Bjarney Ásgeirsdóttir, íbúi að Miðvangi 41 þar sem skotið var á tvo bíla í morgun, sagðist hafa orðið óörugg og óttasleginn vegna ástandsins sem skapaðist í morgun. Henni fannst skorta nægilega upplýsingagjöf frá lögreglunni en einu upplýsingarnar sem hún fékk um málið heyrði hún í útvarpinu.

Var með barnið í bílnum þegar skotið var á hann

Faðir og sex ára gamall sonur hans voru í öðrum bílanna sem skotið var á við Miðvang í Hafnarfirði í morgun. Lögreglan rannsakar skothríð sjötugs karlmanns á bílana sem tilraun til manndráps.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×