Erlent

Gefur út skot­leyfi á eigin flokks­syst­kini í kosninga­aug­lýsingu

Kjartan Kjartansson skrifar
Eric Greitens sækist nú eftir að verða öldungadeildarþingmaður Missouri. Hann hætti sem ríkisstjóri í skugga alvarlegra ásakana árið 2018.
Eric Greitens sækist nú eftir að verða öldungadeildarþingmaður Missouri. Hann hætti sem ríkisstjóri í skugga alvarlegra ásakana árið 2018. Vísir/afp

Frambjóðandi í forvali Repúblikanaflokksins fyrir kosningar til öldungadeildarþings talar um að gefa út veiðileyfi á flokkssystkini sín í nýrri kosningaauglýsingu. Í henni sést frambjóðandinn vopnaður haglabyssu ráðast inn í hús í fylgd vopnaðra sérsveitarmanna.

Auglýsing Erics Greitens, sem skoðanakannanir sýna með forystu fyrir forval Repúblikana í Missouri fyrir kosningar til annars öldungadeildarsætis ríkisins, hefur vakið mikla athygli. Í henni virðist hann hóta ofbeldi gegn öðrum repúblikönum sem eru honum ekki sammála.

„Ég er Eric Greitens, sérsveitarmaður sjóhersins, og í dag ætlum við á RINO-veiðar,“ segir Greitens í upphafi myndbandsins. „RINO“ er skammstöfun á ensku sem stendur fyrir „repúblikanar að nafninu einu til“ (e. Republicans in name only).

Í framhaldinu sést hann sitja um dyr húss ásamt einkennisklæddum mönnum vopnuðum hríðskotarifflum. Greitens, sem sjálfur er vopnaður haglabyssu, lætur þar eins og hann tali inn á náttúrulífsmynd þegar hann segir aðra repúblikana „nærast á spillingu og hafa rendur hugleysis“.

Í næstu andrá brjótast Greitens og félagar inn í húsið og virðast sprengja hvellsprengju. Inn í reykfylltu húsinu segir Greitens engin fjöldamörk á veiðileyfinum.

Auglýsingin hefur vakið hörð viðbrögð. Sumir benda á að aukaleikarar í henni skarti einkennismerki sérsveitar hersins og setja spurningamerki við hvort að herinn hafi veitt leyfi fyrir því. Aðrir benda einfaldlega á að auglýsingin sé „sturluð“.

Sakaður um ofbeldi og ógnanir

Þó að Greitens lýsi sér sem „utangarðsmanni“ í stjórnmálum í auglýsingunni þá er hann fyrrverandi ríkisstjóri Missouri. Hann neyddist til að segja af sér árið 2018 eftir að hann var ákærður fyrir að taka nektarmyndir af hjákonu sinni og hóta henni með því að birta þær.

Í kosningabaráttunni nú hefur fyrrverandi eiginkona Greitens sakað hann um að beita sig ofbeldi á meðan á sambandi þeirra stóð. Hún sóttist eftir skilnaði eftir hneykslismálið árið 2018. Í skriflegri yfirlýsingu fyrir dómstól sagði hún jafnframt að reynt hafi verið að takmarka aðgang hans að skotvopnum vegna þess að hann sýndi af sér „óstöðuga og ofbeldisfulla hegðun“.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.