Erlent

Ríkisstjóri handtekinn, grunaður um hótun með nektarmynd

Kjartan Kjartansson skrifar
Eric Greitens var kjörinn ríkisstjóri Missouri árið 2016. Brotið sem hann er sakður um átti sér stað árið 2015.
Eric Greitens var kjörinn ríkisstjóri Missouri árið 2016. Brotið sem hann er sakður um átti sér stað árið 2015. Vísir/AFP

Eric Greitens, ríkisstjóri Missouri í Bandaríkjunum, var ákærður fyrir glæpsamlegt brot gegn friðhelgi einkalífs og handtekinn í dag. Málið er sagt tengjast framhjáhaldi hans árið 2015. Hann er sakaður um að hafa hótað hjákonunni að birta nektarmynd sem hann tók af henni ef hún talaði einhvern tímann um samband þeirra opinberlega.

Dagblaðið Kansas City Star segir að ákærudómstóll í St. Louis hafi gefið út ákæru á hendur ríkisstjóranum. Skömmu eftir að fréttir af ákærunni spurðust út sáust lögreglumenn leiða Greitens niður gang í dómshúsi í borginni. Yfirvöld hafa staðfest að Greitens hafi verið hnepptur í varðhald.

Rannsókn á framferði ríkisstjórans hófst eftir að ásakanir sem vörðuðu framhjáhald hans voru gerðar opinberar í síðasta mánuði. Í ákærunni er Greitens sakaður um að hafa vísvitandi myndað konuna nakta án vitundar hennar og síðan sent myndina þannig að hún „varð aðgengileg í gegnum tölvu“.

New York Times segir að það hafi verið sú staðreynd að Greitens kom myndinni á tölvutækt form sem gerði brot hans að stórglæpsamlegt frekar en að minniháttar broti.

Fyrrverandi eiginmaður kom málinu í fjölmiðla í óþökk konunnar

Greitens á að hafa tekið myndina þegar hjákonan var með bundið fyrir augun og hendur hennar voru sömuleiðis bundnar. Hann hafi síðan notað myndina til að hóta konunni. Það var fyrrverandi eiginmaður konunnar sem steig fyrst fram með ásakanirnar en hún hefur sjálf ítrekað hafnað því að tjá sig um málið. Fyrrverandi eiginmaðurinn tók upp játningu hennar án vitneskju hennar og birti hana opinberlega í óþökk hennar.

Fram að þessu hefur Greitens, sem er repúblikani sem bauð sig meðal annars fram sem fulltrúi fjölskyldugilda, harðneitað að segja af sér. Hann hefur þó viðurkennt framhjáhaldið. Ákæran nú gæti leitt til þess að ríkisþingmenn ákæri hann og boli honum þannig úr embætti.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.