Erlent

Skiluðu tönninni úr þjóð­hetju Kongó

Atli Ísleifsson skrifar
Börn Patrice Lumumba í Brussel í morgun, eftir að tönninni hafði verið komið fyrir í kistu.
Börn Patrice Lumumba í Brussel í morgun, eftir að tönninni hafði verið komið fyrir í kistu. AP

Yfirvöld í Belgíu skiluðu í morgun tönn úr kongósku þjóð- og sjálfstæðishetjunni Patrice Lumumba í hendur aðstandenda Lumumba og yfirvalda í Austur-Kongó. Mikið hefur verið fjallað um tönnina í Belgíu síðustu ár, sem eru einu jarðnesku leifar Lumumba sem vitað er um.

Síðustu ár og áratugi hafa Belgar verið að gera upp við nýlendutímabil landsins og ýmist ódæðisverk sem voru framin þá. Belgíski forsætisráðherrann Alexander De Croo sagði í morgun að þessi stund kæmi allt of seint. „Það er ekki eðlilegt að Belgía hafi haldið í leifar eins af stofendum kongósku þjóðarinnar í heila sex áratugi.“

Patrice Lumumba varð fyrsti forsætisráðherra Kongó árið 1960, þá einungis 34 ára gamall, eftir að landið lýsti yfir sjálfstæði frá Belgíu.AP

De Croo baðst sömuleiðis afsökunar á þætti Belga í aftökunni á Lumumba sem var fyrsti forsætisráðherra Kongó árið 1960, þá einungis 34 ára gamall, eftir að landið lýsti yfir sjálfstæði frá Belgíu. Hann hafði þá barist fyrir sjálfstæði landsins um árabil.

Lumumba var svo handtekinn og fangelsaður eftir valdarán hersins árið 1961 undir stjórn Mobutu Sese Seko sem átti eftir að stýra landinu með harðri hendi allt til dauðadags 1997.

Lumumba var ráðinn af dögum árið 1961 og líki hans eytt, að frátalinni einni tönn, að sögn í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að grafreitur hans yrði að áfangastað pílagríma. 

Belgísk yfirvöld komust yfir tönnina árið 2016 úr þegar dóttir belgísks lögreglustjóra kom henni í hendur yfirvalda, en faðir hennar sagðist hafa komist yfir tönnina eftir að hafa haft umsjón með eyðingu líks Lumumba. Dóttir Lumumba hefur svo barist fyrir því í áraraðir að fá tönnina aftur til heimalandsins.

Lengi hefur verið deilt um dauða Lumumba og þá sér í lagi ábyrgð bandarískra og belgískra stjórnvalda vegna mögulegra tenginga Lumumba við Sovétríkin. Rannsóknarnefnd Belgíuþings komst að þeirri niðurstöðu að ríkisstjórn landsins bæri „siðferðislega ábyrgð“ á dauða hans. Þá greindi bandarísk rannsóknarnefnd Bandaríkjaþings frá því árið 1975 að leyniþjónusta landsins, CIA, hafi á sínum tíma staðið fyrir misheppnaðri tilraun til að ráða Lumumba af dögum.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×