Erlent

Belgar munu loks skila tönninni úr Lumumba til Kongó

Atli Ísleifsson skrifar
Patrice Lumumba var handtekinn og fangelsaður eftir valdarán hersins. Hann var síðar ráðinn af dögum.
Patrice Lumumba var handtekinn og fangelsaður eftir valdarán hersins. Hann var síðar ráðinn af dögum. Getty

Dómstóll í Belgíu hefur nú greitt leiðina fyrir því að tönn úr Patrice Lumumba, sjálfstæðishetju og fyrsta forsætisráðherra Kongó, verði skilað aftur til heimalandsins.

Lumumba var ráðinn af dögum árið 1961 og var líki hans eytt, að frátalinni einni tönn. Dóttir Lumumba hefur barist fyrir því í áraraðir að fá tönnina aftur til heimalandsins, það er Austur-Kongó, og segir hún niðurstöðu dómstólsins táknrænan og „mikinn sigur“ fyrir þjóðina.

Lumumba varð fyrsti forsætisráðherra Kongó árið 1960, þá einungis 34 ára gamall, eftir að landið lýsti yfir sjálfstæði frá Belgíu. Hann hafði þá barist fyrir sjálfstæði landsins um árabil.

Líkinu eytt

Lumumba var hins vegar handtekinn og fangelsaður eftir valdarán hersins undir stjórn Mobutu Sese Seko sem átti eftir að stýra landinu með harðri hendi allt til dauðadags 1997. 

Lumumba var svo ráðinn af dögum af aðskilnaðarsinnum í janúar 1961 og er talið að lík hans hafi svo verið sagað í sundur og leyst upp í sýru í tilraun til að koma í veg fyrir að gröf hans yrði mögulega að áfangastað pílagríma.

Lögreglumaður sem átti að hafa átt þátt í að eyða líkinu á að hafa rifið tönn úr Lumumba og svo farið með tönnina til Belgíu. Tönnin hefur svo verið í fórum fjölskyldu mannsins æ síðan.

Tönnin sé úr Lumumba

Talsmaður saksóknaraembættis í Belgíu, Eric Van Duyse, segir að ekki verði tekið lífsýni úr tönninni þar sem slík framkvæmd myndi eyðileggja sjálfa tönnina. Yfirvöld séu þó ekki í nokkrum vafa – tönninn sé úr Lumumba.

Lengi hefur verið deilt um dauða Lumumba og þá sér í langi ábyrgð bæði bandarískra og belgískra stjórnvalda, vegna mögulegra tenginga Lumumba við Sovétríkin.

Rannsóknarnefnd Belgíuþings komst að þeirri niðurstöðu að ríkisstjórn landsins bæri „siðferðislega ábyrgð“ á dauða hans. Þá greindi bandarísk rannsóknarnefnd Bandaríkjaþings frá því árið 1975 að leyniþjónusta landsins, CIA, hafi á sínum tíma staðið fyrir misheppnaðri tilraun til að ráða Lumumba af dögum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.