Erlent

Nefndu torg í Brussel í höfuðið á frelsishetjunni Lumumba

Atli Ísleifsson skrifar
Patrice Lumumba var bolað úr embætti nokkrum mánuðum eftir að hafa tekið við embætti forsætisráðherra og var svo myrtur af aðskilnaðarsinnum sem nutu stuðnings Belgíustjórnar í janúar 1961.
Patrice Lumumba var bolað úr embætti nokkrum mánuðum eftir að hafa tekið við embætti forsætisráðherra og var svo myrtur af aðskilnaðarsinnum sem nutu stuðnings Belgíustjórnar í janúar 1961. Vísir/Getty
Borgaryfirvöld í Brussel gáfu í dag torgi í suðausturhluta belgísku höfuðborginnar nýtt nafn og er það nú nefnt í höfuðið á kongósku frelsishetjunni Patrice Lumumba sem myrtur var 1961.

Lumumba var fyrsti forsætisráðherra Kongó, landsins sem nú gengur undir nafninu Lýðveldið Kongó, eftir að landið hlaut sjálfstæði frá Belgíu árið 1960.

Sú staðreynd að torg skuli nefnt í höfuðið á Lumumba er af mörgum talið stórt og mikilvægt skref fyrir Belgíu að gera upp nýlendutímabil landsins.

Patrice Lumumba var bolað úr embætti nokkrum mánuðum eftir að hafa tekið við embætti forsætisráðherra og var svo myrtur af aðskilnaðarsinnum sem nutu stuðnings Belgíustjórnar í janúar 1961. Árið 2002 baðst utanríkisráðherra Belgíu afsökunar á þætti belgískra stjórnvalda í morðinu á Lumumba.

Við athöfn í Brussel í dag gagnrýndu ræðumenn að enn séu fjöldi stytta af Leopold II Belgíukonungi í Brussel, en Kongó var einkanýlenda Leopolds II frá árinu 1885 til 1908. Hafa sagnfræðingar mikið fjallað um hvernig hann arðrændi og kúgaði íbúa Kongó með skelfilegum hætti.

Torgið sem um ræðir er að finna í hverfinu Matange í suðausturhluta Brussel þar sem Belgar af kongóskum uppruna eru fjölmennir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×