Enski boltinn

Lukaku gæti snúið aftur til Inter og Sterling farið til Chelsea í staðinn

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Romelu Lukaku gæti snúið aftur til Ítalíu.
Romelu Lukaku gæti snúið aftur til Ítalíu. Robin Jones/Getty Images

Svo virðist sem belgíski framherjinn Romelu Lukaku sé við það að ganga í raðir Inter á Ítalíu á láni, tæpu ári eftir að hann varð dýrasti leikmaður Chelsea frá upphafi. Þá hefur Chelsea áhuga á að fá Raheem Sterling, framherja Englandsmeistara Manchester City, í sínar raðir.

Chelsea keypti Lukaku til liðsins frá Inter í ágúst á síðasta ári fyrir 97,5 milljónir punda. Með Inter varð Lukaku Ítalíumeistari og hefur ekki farið leynt með það hversu vel honum leið hjá ítalska stórveldinu.

Samkvæmt hinum ýmsu miðlum á Bretlandseyjum virðist nú sem það sé aðeins tímaspursmál hvenær Lukaku verði kynntur sem leikmaður Inter á nýjan leik. Sky Sports er meðal þeirra miðla sem greina frá.

Lögræðingur leikmannsinns, Sebastien Ledure, sér um samningaviðræður fyrir hönd Lukaku þar sem samningur framherjans við umboðsmanninn sinn rennur út um mánaðarmótin.

Félögin tvö, Chelsea og Inter, ræddu um hvernig lánssamningi leikmannsinns yrði háttað, en talið er að um fimm milljónum punda muni á því sem Chelsea vill og því sem Inter er tilbúið að borga. Talið er að Chelsea vilji fá tíu milljónir punda, en Inter sé tilbúið að bjóða fimm milljónir í lánsfé.

Ef samningar nást á milli Chelsea og Inter þá losar það um umtalsverða fjármuni sem Chelsea getur nýtt í leikmannakaup og launakostnað, enda borgar Lundúnaliðið leikmanninum 350 þúsund pund á viku.

Forráðamenn Chelsea eru þá nokkuð vissir um að þeir geti lokkað Raheem Sterling, framherja Englandsmeistara Manchester City, til liðsins.

Samkvæmt heimildarmönnum Sky Sports þarf Chelsea að reiða fram um 60 milljónir punda til að klófesta Sterling sem á aðeins eitt ár eftir af samningi sínum hjá City.

Þessir sömu heimildarmenn segja þó einnig að forráðamönnum Chelsea þyki 35 milljónir punda sanngjarnara verð. Það væri þá svipuð upphæð og Bayern München greiðir fyrir Sadio Mané frá Liverpool sem einnig á eitt ár eftir af samningi sínum hjá þeim rauðklæddu.

Raheem Sterling gæti verið á leið frá Englandsmeisturum Manchester City.Shaun Botterill/Getty Images

Tengdar fréttir

Sterling sterklega orðaður við Chelsea

Fram kemur í enskum fjölmiðlum að enski landsliðsmaðurinn í fótbolta Raheem Sterling gæti verið á leiðinni frá Manchester City til Chelsea. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×