Fótbolti

„Eigum heima í þessari deild“

Jón Már Ferro og Atli Arason skrifa
Guðmunda Brynja Óladóttir, leikmaður KR, segir liðið eiga heima í deild þeirra bestu.
Guðmunda Brynja Óladóttir, leikmaður KR, segir liðið eiga heima í deild þeirra bestu. vísir/daníel

Guðmunda Brynja, framherji KR var að vonum mjög glöð eftir góðan 1-3 sigur í Keflavík í rigningu og roki.

„Svakalega glöð, það er erfitt að koma til Keflavíkur og taka þrjú stig. Við erum líka búnar að vera á góðu róli og gott að klára leikina núna, þannig að þessi þrjú stig voru mjög mikilvæg fyrir baráttuna,“ sagði Guðmunda Brynja í samtali við Vísi eftir leik.

Mikill stígandi hefur verið í leik KR frá upphafi tímabils. Fyrsti leikurinn mótsins var einmitt á móti Keflavík á Meistaravöllum þar sem KR steinlá 0-4. 

„Við höfum fengið háskólastelpurnar til baka og útlendingarnir komnir loksins inn, svo bara ákváðum við að pressa hærra á vellinum og vinna boltann ofar. Það er að henta okkur vel,“ svaraði Guðmunda aðspurð út í stíganda í leik liðsins frá upphafi móts.

Guðmunda er brött fyrir framhaldinu í mótinu og telur að fleiri sigurleikir séu á leiðinni.

„Já ég held það, við erum búnar að spila mjög vel núna síðustu þrjá deildarleiki og spiluðum vel á móti Val í bikarleiknum, við erum búnar að sýna það að við eigum heima í þessari deild og sigrarnir koma. Ég meina það er bara hálfleikur núna, fyrsti leikurinn í seinni umferðinni er byrjaður og við erum búnar að vinna jafn marga leiki og við gerðum í fyrri umferðinni. Þannig við byrjum allavega vel, ég held það komi bara fleiri sigrar.“ 

Langt hlé kemur á deildinni núna. Guðmunda á von á því að Christopher, annar af þjálfurum KR, láti þær æfa stíft á meðan.

„Ég er nokkuð viss um að Christopher láti okkur hlaupa mjög mikið, þannig við erum bara að fara inn í undirbúningstímabil og getum núna bara stillt okkar leik og gert enn betur. 

Honum [Christopher] finnst gaman að hlaupa og pressa, þannig ég held við förum bara í þannig æfingar og æfum pressuna betur og uppspilið, þannig ég held við verðum bara flottar þegar hléið er búið,“ sagði Guðmunda að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×