Erlent

Innanríkisráðherra Bretlands gefur grænt ljós á framsal Assange

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Julian Assange, stofnandi Wikileaks, var handtekinn í sendiráði Ekvador í London árið 2019. Þar hafði hann haldið til í sjö ár til að forðast handtöku og mögulegt framsal til Bandaríkjanna.
Julian Assange, stofnandi Wikileaks, var handtekinn í sendiráði Ekvador í London árið 2019. Þar hafði hann haldið til í sjö ár til að forðast handtöku og mögulegt framsal til Bandaríkjanna. AP/Alastair Grant

Priti Patel innanríkisráðherra Bretlands hefur gefið grænt ljós á framsal Julians Assange, stofnanda Wikileaks, frá Bretlandi til Bandaríkjanna. 

Þetta kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins. Þar segir að Assange hafi tvær vikur til þess að áfrýja niðurstöðu ráðherrans, samkvæmt svari frá innanríkisráðuneytinu.

Breskur dómari gaf í apríl grænt ljós á framsal Assange. Um var að ræða stórt, formlegt skref í langri deilu um framsal hans og það tekið í kjölfar þess að í mars var honum neitað að áfrýja úrskurði um að lagalega mætti framselja hann til Bandaríkjanna.

Fram kemur í yfirlýsingu frá samtökunum Ekki framselja Assange (e. Don't Extradite Assange) að ákvörðun Patel sé mikil aðför að fjölmiðlafrelsi. 

„Hver sá landsmaður, sem annt er um tjáningarfrelsi, ætti að skammast sín innilega fyrir það að innanríkisráðherrann hafi staðfest framsal Julians Assange til Bandaríkjanna, landsins sem reyndi að ráða hann af dögum,“ segir í yfirlýsingunni. 

Assange var handtekinn í sendiráði Ekvador í Lundúnum árið 2019. Hann var eftirlýstur fyrir að mæta ekki í dómsal þegar hann átti að gera það og hafði hann haldið til í sendiráðinu í sjö ár. Frá því hann var handtekinn hefur Assange verið haldið í hámarksöryggisfangelsinu Belmarsh.

Bandaríkjamenn hafa krafist þess að Assange verði framseldur vegna ákæra fyrir samsæri um tölvuinnbrot og njósnir þar í landi. Ákærurnar má rekja til birtingar Wikileaks á hundruð þúsunda skjala Bandaríkjahers og utanríkisþjónustunnar árið 2010. Skjölunum var leikið til samtakanna af Chelsea Manning.

Fréttin var uppfærð klukkan 10:10.


Tengdar fréttir

Dómari gefur grænt ljós á framsal Assange

Breskur dómari gaf í dag grænt ljós á framsal Julian Assange, stofnanda Wikileaks, frá Bretlandi til Bandaríkjanna. Það er þó ríkisstjórnar Bretlands að taka lokaákvörðun í málinu og er það nú á borði Priti Patel, innanríkisráðherra.

Segir málfrelsið og frelsi fjölmiðla undir í máli Assange

Ritstjóri WikiLeaks segir ómannúðlega meðferð breskra stjórnvalda á Julian Assange skipta alla sem láti málfrelsið og frjálsa fjölmiðla sig varða máli. Mótmælendur við breska sendiráðið kröfðust þess í dag að Assange verði sleppt úr haldi þegar í stað.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.