Erlent

Ekkert sak­næmt við dauða Lars Vilks

Atli Ísleifsson skrifar
Lars Vilks hafði borist ótal líflátshótanir vegna Múhameðsteikninga eftir hann sem birtist í sænsku dagblaði árið 2007.
Lars Vilks hafði borist ótal líflátshótanir vegna Múhameðsteikninga eftir hann sem birtist í sænsku dagblaði árið 2007. EPA

Lögregla í Svíþjóð hefur lokið við rannsókn á dauða listamannsins Lars Vilks og tveggja lögreglumanna sem fórust í bílslysi skammt frá Markaryd í Smálöndunum á síðasta ári. Niðurstaðan er sú að ekkert saknæmt hafi átt sér stað.

Ráðist var í rannsóknina vegna mögulegs gruns um að Vilks hafi verið ráðinn bani, en hann naut lögregluverndar vegna ítrekaðra hótana sem honum hafði borist vegna teikninga sinna af Múhameð spámanni.

Sænska lögreglan greindi frá niðurstöðu rannsóknarinnar í gær og sagði að um „hörmulegt slys“ hafi verið að ræða. Ítarleg rannsókn hafi verið gerð á slysinu, þar sem tæknirannsókn var gerð á slysstaðnum, bíllinn rannsakaður í bak og fyrir og rætt var við vitni. 

Frá slysstaðnum á E4-hraðbrautinni nærri Markaryd í október á síðasta ári.EPA

Verið var að flytja Vilks í lögreglubíl eftir E4-hraðbrautinni þegar hann rakst á miklum hraða á vörubíl og varð alelda. Tveir lögreglumenn, auk hins 75 ára Vilks, létust í slysinu. Er talið líklegast að eitt dekkja lögreglubílsins hafi sprungið á ferð og við það hafi ökumaðurinn misst stjórn á bílnum og farið yfir á öfugan vegarhelming þar sem vörubíll kom aðvífandi. Ekki hafi verið um glæp að ræða.

Listaverk Vilks, Nimis, á suðvesturströnd Skánar.EPA

Vilks var meðal annars þekktur fyrir að hafa teiknað Múhameð spámann sem hund sem birtist í sænsku dagblaði árið 2007. Myndin vakti hörð viðbrögð og hafði Vilks ítrekað borist ótal líflátshótanir vegna þeirra.

Árið 2015 var hann helsta skotmark hryðjuverkamanns sem gerði árás á menningarhúsið Krudttønden í Kaupmannahöfn. Vilks var þá hluti af ráðstefnu sem fram fór í húsinu. Einn lést í árásinni og þrír særðust, en Vilks slapp.


Tengdar fréttir

Um­deildi lista­maðurinn Lars Vilks lést í bíl­slysi

Sænski listamaðurinn Lars Vilks lést í bílslysi í dag ásamt tveimur lögregluþjónum. Vilks hafði undanfarin ár notið verndar lögreglu vegna fjölda líflátshótana sem honum höfðu borist vegna teikninga hans af Múhameð spámanni.

Allt bendir til að um slys hafi verið að ræða en ætla að leita af sér allan grun

Lögregla í Svíþjóð segir allt benda til að um slys hafi verið að ræða þegar bíll með listamanninn Lars Vilks og tvo lögreglumenn um borð, rakst á vörubíl á hraðbraut í sænsku Smálöndunum í gær. Vilks og lögreglumennirnir sem gættu hans, létust í árekstrinum, en ökumaður vörubílsins var fluttur á sjúkrahús.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×