Erlent

Allt bendir til að um slys hafi verið að ræða en ætla að leita af sér allan grun

Atli Ísleifsson skrifar
Slysið varð fyrir utan Markaryd í Smálöndum síðdegis í gær.
Slysið varð fyrir utan Markaryd í Smálöndum síðdegis í gær. EPA

Lögregla í Svíþjóð segir allt benda til að um slys hafi verið að ræða þegar bíll með listamanninn Lars Vilks og tvo lögreglumenn um borð, rakst á vörubíl á hraðbraut í sænsku Smálöndunum í gær. Vilks og lögreglumennirnir sem gættu hans, létust í árekstrinum, en ökumaður vörubílsins var fluttur á sjúkrahús.

„Þetta kom fram á fréttamannafundi sænsku lögreglunnar í morgun. Vinna viðbragðsaðila á vettvangi hefur verið mjög erfið og vinnunni er ekki lokið,“ sagði lögreglustjórinn Carina Persson á fundinum. 

Vilks hafði undanfarin ár notið verndar lögreglu vegna fjölda líflátshótana sem honum höfðu borist vegna teikninga hans af Múhameð spámanni. 

Persson sagði að rannsókn stæði yfir og að lögregla vilji leita af sér allan grun um að engir "utanaðkomandi þættir" hafi valdið slysinu. Er talið að rannsókn gæti tekið langan tíma.

Lars Vilks hafði notið verndar lögreglu síðustu ár.AP

Fór yfir í gegnum vegriðið

Slysið varð á E4-hraðbrautinni skammt frá Markaryd í Smálöndunum um klukkan 15:30 að staðartíma. Lögregla segir að bíllinn sem Vilks var í hafi farið yfir á hina akreinina og rekist þar á vörubíl sem kom út gagnstæðri átt. Bíllinn hafi svo orðið undir vörubílnum og alelda.

Lögregla segir að bíllinn sem Vilks og lögreglumennirnir óku um í sé sérstaklega þungur, um fjögur tonn, og þurfa ökumenn því sérstaka þjálfun til að fá að keyra hann. „En þetta gæti skýrt af hverju bíllinn komst í gegnum vegriðið sem skilur akstursleiðirnar í sundur.“

Frá blaðamannafundi sænsku lögreglunnar í morgun.AP

Allt frá birtingu Múhameðsmyndarinnar hafði Vilks borist ótal hótanir gegn lífi sínu.

Árið 2015 var hann helsta skotmark hryðjuverkamanns sem gerði árás á menningarhúsið Krudttønden í Kaupmannahöfn. Vilks var þá hluti af ráðstefnu sem fram fór í húsinu. Einn lést í árásinni og þrír særðust.


Tengdar fréttir

Um­deildi lista­maðurinn Lars Vilks lést í bíl­slysi

Sænski listamaðurinn Lars Vilks lést í bílslysi í dag ásamt tveimur lögregluþjónum. Vilks hafði undanfarin ár notið verndar lögreglu vegna fjölda líflátshótana sem honum höfðu borist vegna teikninga hans af Múhameð spámanni.

Kveðst hættur öllu spaugi

Skopmyndateiknarinn Lars Vilks hefur eftir hryðjuverkaárásina í Kaupmannahöfn ekki getað búið heima, heldur flytur hann sig stöðugt á milli staða í Svíþjóð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×