Erlent

Að minnsta kosti 50 látnir eftir skot­á­rás á kaþólska kirkju

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Fólk safnast saman fyrir utan St. Francis kirkju eftir skotárás sem varð að minnsta kosti 50 að bana.
Fólk safnast saman fyrir utan St. Francis kirkju eftir skotárás sem varð að minnsta kosti 50 að bana. Rahaman A Yusuf/AP

Óttast er að meira en 50 séu látnir eftir skotárás byssumanna á kaþólska kirkju í Suðvestur-Nígeríu á hvítasunnudag. Árásarmennirnir komu keyrandi á mótórhjólum og hófu skothríð á kirkjugesti sem höfðu safnast saman á hvítasunnudag í St. Francis Catholic Church, segir í umfjöllun AP í Nígeríu um málið.

Yfirvöld hafa ekki gefið út tölu látinna en Adelegbe Timilevin, fulltrúi Owo-héraðs á nígeríska þinginu, segir að minnsta kosti 50 látna. Aðrir telja tölu látinna enn hærri, segir AP um málið. Þá greindir Timilevin frá því að árásarmennirnir hefðu einnig numið prest kirkjunnar á brott.

Arakunrin Akaredolu, ríkisstjóri Ondo-fylkis, birti yfirlýsingu á Twitter um skotárásina þar sem hann hvatti fólk til að halda ró sinni og leyfa öryggisstofnunum að sjá um að bregðast við árásinni. Þá sagði hann: 

„[E]kki taka lögin í eigin hendur. Árásarmennirnir munu aldrei sleppa. Við erum á hælunum á þeim. Og ég get fullvissað ykkur að við munum ná þeim!“

Árásir mótorhjólagengja eru tíðar í norðurhluta Nígeríu, þar sem hryðjuverkamenn Boko Haram hafa herjað á þorp og drepið þorpsbúa. Slíkar árásir eru sjaldgæfar í suðvestur Nígeríu og Ondo-fylki er almennt þekkt sem rólegt fylki. 

Hins vegar er einungis liðin vika frá öðrum kirkjuharmleik í Nígeríu þegar 31 lést og margir slösuðust í troðningum á kirkjumarkaði í borginni Port Harcourt í suðurhluta landsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×