Innlent

Bjart­­sýn á að Tyrkjum snúist hugur

Atli Ísleifsson og Vésteinn Örn Pétursson skrifa
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra segir íslensk stjórnvöld hafa talað mjög skýrt á fundum NATO varðandi inngöngu Svía og Finna í bandalagið.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra segir íslensk stjórnvöld hafa talað mjög skýrt á fundum NATO varðandi inngöngu Svía og Finna í bandalagið. Vísir/Egill

Umræða um staðfestingu á viðbótarsamningi Atlantshafsbandalagsins um inngöngu Svíþjóðar og Finnlands í bandalagið hófst á Alþingi í gær. Yfirgnæfandi stuðningur var við málið á þinginu, þvert á flokka.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra segist ekki geta verið annað en bjartsýn á að Tyrkjum snúist hugur vegna NATO-umsóknar Svía og Finna, en Tyrkland hefur, eitt aðildarríkja, sett sig upp á móti inngöngu ríkjanna. Hafa Tyrkir þar sakað Svía um að skjóta skjólshúsi yfir ákveðnum Kúrdum, sem Tyrkir saka um að vera hryðjuverkamenn.

„Það er vissulega á frekar viðkvæmu stigi akkúrat núna. 29 ríki eru alveg skýr. Það er ekki þannig að Tyrkir hafi lýst yfir andstöðu, heldur á þessum tímapunkti geti þau ekki [samþykkt inngöngu]. Ég veit að það eru samtöl í gangi og það skiptir svo miklu máli fyrir Atlantshafsbandalagið og svæðið í heild sinni að þetta leysist farsællega. Ég geri ráð fyrir að það takist,“ segir utanríkisráðherra.

Er eitthvað sem íslensk stjórnvöld geta gert til að beita sér fyrir því?

„Svona skref [staðfesting þingsins á viðbótarsamningnum] hefur áhrif á það. Þetta er að sýna viljann í verki og samstöðuna í verki. Við erum hér í samfloti við Norðurlöndin, og sérstaklega Danmörk sem ætlar líka að afgreiða málið eftir helgi. Við síðan tölum mjög skýrt á fundum NATO. Það hef ég gert um stuðning okkar við inngöngu Svía og Finna í NATO. Þannig að við höfum vissulega hlutverki að gegna, en við erum ekki að senda diplómata til Tyrklands á fundi. Við erum ekki beinir þátttakendur, en óbeinir.“

Þið ætlið að afgreiða þetta á sama tíma og Danir. Ertu bjartsýn á að það takist?

„Já, ég er það. Það er yfirgnæfandi stuðningur um málið hér á Alþingi og þingið hefur sýnt bæði sveigjanlega og mikla samstöðu. Umræður hérna sýndu það þannig að ég held að það verði mikill sómi af afgreiðslu löggjafarþingsins hér á Íslandi gagnvart þessari umsókn,“ segir Þórdís Kolbrún.


Tengdar fréttir

Nokkur stórmál óafgreidd fyrir þinglok

Aðeins fjórir þingfundadagar eru eftir af vorþingi samkvæmt starfsáætlun þingsins og enn bíða nokkur stór ágreiningsmál í nefnd eftir lokaumræðu. Fundað verður á morgun og á fimmtudag í þessari viku.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.