Enski boltinn

Segja Elanga líta út eins og nýjan Ron­aldo

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Það virðist sem Cristiano Ronaldo hafi haft mikil áhrif á Anthony Elanga.
Það virðist sem Cristiano Ronaldo hafi haft mikil áhrif á Anthony Elanga. James Gill/Getty Images

Anthony Elanga og Cristiano Ronaldo voru að hluta til ljósið í myrkrinu á annars ömurlegu tímabili Manchester United. Það virðist sem Svíinn ungi hafi lært eitt og annað af hinum margreynda Portúgala.

Sænskir fjölmiðlar eiga vart orð til að lýsa breytingu hins tvítuga Elanga sem var aðallega í hlutverki hlauparans í vetur. Hann virðist nánast hafa verið inn í líkamsræktarsal allt frá því tímabilinu lauk ef marka má myndir af drengnum.

„Það virðist sem hann sé kominn með sama æfingaplan og Cristiano Ronaldo,“ segir ESPN en Sportbladet í Svíþjóð greinir frá.

Elanga hefur áður greint frá því að Ronaldo – sem er 17 árum eldri – sé hans helsta fyrirmynd og að Portúgalinn sé alltaf að gefa honum ráð til að bæta leik sinn. Elanga virðist hafa hlustað á fyrirmynd sína, allavega hvað varðar að lyfta lóðum.

Ronaldo fór á sínum tíma úr því að vera snöggur vængmaður í þennan ofuríþróttamann sem við þekkjum í dag. Það verður að teljast ólíklegt að Elanga nái sömu hæðum enda Ronaldo einn sá besti frá upphafi.

Elanga skoraði fjögur mörk og lagði upp þrjú til viðbótar í þeim 29 leikjum sem hann kom við sögu í fyrir Manchester United á síðustu leiktíð. Hann á því töluvert langt í land ætli hann að ná Ronaldo þegar kemur að því að setja boltann í netið en það er ljóst að Elanga ætlar að gera sitt besta til að líkjast átrúnaðargoði sínu, allavega í ræktinni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.