Real Madrid Evrópumeistari í fjórtánda sinn

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Real Madrid fagnaði sigri í Meistaradeild Evrópu í fjórtánda sinn í kvöld.
Real Madrid fagnaði sigri í Meistaradeild Evrópu í fjórtánda sinn í kvöld. Mustafa Yalcin/Anadolu Agency via Getty Images

Real Madrid er Evópumeistari í fótbolta í fjórtánda sinn í sögunni eftir 1-0 sigur gegn Liverpool í úrslitaleik Meistaradeildar Evópu í París í kvöld.

Eftir rúmlega hálftíma seinkun var loksins flautað til leiks í París. Ef marka má skýringar UEFA var leiknum seinkað vegna þess að stuðningsmenn Liverpool skiluðu sér ekki á völlinn á tilsettum tíma, en ef marka má hinar ýmsu frásagnir og nokkuð mörg myndbönd á Twitter þá ríkti algjört skipulagsleysi fyrir utan völlinn. Stuðningsmenn sem höfðu beðið í óratíma komust ekki inn og lögregla beitti táragasi á óþreyjufulla stuðningsmenn Liverpool.

Það var nokkuð skýr munur á leikplani liðanna í upphafi leiks. Rauðklæddir Liverpoolmenn ætluðu sér greinilega að sækja stíft og setja pressu á Madrídinga á meðan hvítklæddir Madrídingar ætluðu sér líklega að treysta frekar á skyndisóknir.

Besta færi Liverpoolmanna í fyrri hálfleik átti Sadio Mané eftir um tuttugu mínútna leik. Hann fékk þá boltann á vítateigslínunni og eftir að hafa tekið nokkrar snertingar lét hann vaða. Boltinn stefndi í átt að nærhorninu, en Thibaut Courtois kom löngutöng í knöttinn og þaðan fór hann í stöngina.

Madrídingar áttu ekki eitt einasta skot að marki fyrstu 40 mínútur leiksins. Karim Benzema virtist þó hafa komið þeim í forystu á 44. mínútu þegar hann kom boltanum í netið eftir gamla góða darraðardansinn í teignum. Línuvörðurinn var fljótur að veifa rangstöðu, en rangstaðan var þó ekki svo augljós. Eftir langa töf og vídjógláp var dómur línuvarðarins þó staðfestur og staðan því enn 0-0 þegar flautað var til hálfleiks.

Síðari hálfleikur bauð svo upp á meira af því sama. Liverpool sótti stíft á meðan leikmenn Real Madrid vörðust og biðu þolinmóðir eftir sínu tækifæri.

Það tækifæri kom eftir rétt tæplega klukkutíma leik þegar Federico Valverde fékk boltann úti á hægri kanti. Þaðan átti hann fasta sendingu inn á teig sem fann fæturna á Vinicius Junior sem þurfti ekki að gera neitt annað en að ýta boltanum yfir marklínuna, 1-0.

Þrátt fyrir að hafa verið mun hættulegri aðilinn voru leikmenn Liverpool nú lentir undir og þurftu því að bæta enn meira í sóknarþunga sinn. Það gerðu þeir og liðið fékk nokkur góð færi til að jafna leikinn.

Það eina sem stóð í vegi fyrir þeim var stóri Belginn í marki Madrídinga. Thibaut Courtois var gjörsamlega stórkostlegur í þessum leik og hver varsla var betri en sú fyrri.

Þegar líða fór að leikslokum náðu Madrídingar að hægja á leik Liverpoolmanna og eftir fimm mínútur af uppbótartíma flautaði dómari leiksins til loka þessa leiks. Real Madrid vann 1-0 sigur og liðið fagnaði sínum fjórtánda Evrópumeistaratitli af mikilli innlifun.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.