Enski boltinn

For­sætis­ráð­herra Bret­lands studdi yfir­töku Sá­danna á New­cast­le

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Það gustar um Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, þessa dagana.
Það gustar um Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, þessa dagana. Leon Neal/Getty Images

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, studdi að ríkisrekinn fjármögnunarsjóð frá Sádi-Arabíu myndi festa kaup á enska fótboltafélaginu Newcastle United. Boris hafði áður sagt að ríkistjórn Bretlands hefði ekki komið að kaupunum á einn eða neinn hátt.

Þetta kemur fram í grein sem var birt á The Guardian. Rannsókn miðilsins hefur leitt í ljós að ríkistjórn Boris Johnson hafi sannfært forráðmenn ensku úrvalsdeildarinnar að samþykkja tilboð PIF - fjármögnunarsjóðs Sádi-Arabíu - í Newcastle. 

Sjóðurinn - sem er í eigu konungsríkisins Sádi-Arabíu - á í dag 80 prósent hlut í Newcastle United. Ekkert fótboltafélag í heiminum á ríkari eigendur.

Í grein The Guardain segir að ríkistjórn Bretlands sá þetta sem of gott tækifæri til að mynda fjárhagsleg tengsl við Sádi-Arabíu til að sleppa því. Mun lávarðurinn Gerry Grimstone - ráðherra í málum fjárfestinga og alþjóðaviðskipta - hafa séð um samningana fyrir hönd bresku ríkistjórnarinnar.

Hann ku hafa fundið lausn við helstu hraðhindrun kaupanna en það var ólögleg streymisveita staðsett í Sádi-Arabíu sem sýndi leiki efstu deildar á Englandi. Sáu forráðmenn ensku úrvalsdeildarinnar það sem næga ástæðu til að koma í veg fyrir kaup Sádanna á Newcastle.

Hlutverk Grimestone, sem var á sínum tíma framkvæmdastjóri Barclays-bankans, innan ríkistjórnar Bretlands er að aðstoða við að brjóta niður hindranir og hjálpa við að landa fjárfestingum í hæsta gæðaflokki. Þá er hann einkar vel tengdur í Sádi-Arabíu.

Eftir að yfirtaka PIF á Newcastle gekk í gegn sagði Gary Hoffman, framkvæmdastjóri ensku úrvalsdeildarinnar, að ríkistjórn Bretlands hefði þrýst á forráðamenn deildarinnar til að samþykkja kaupin. 

Hoffman sagði þó að ríkistjórnin hefði ekki haft áhrif á ákvörðun deildarinnar. Þá listaði hann upp þá sem komu að sölu Newcastle fyrir hönd ríkistjórnarinnar. Þar var Grimstone nefndur á nafn ásamt Eddie Lister. Fer það gegn því sem Boris sagði fyrir breska þinginu í apríl 2021:

„Ríkistjórn Bretlands kom ekki á neinn hátt að yfirtöku Newcastle.“

Engin svör fengust er Guardian reyndi að krefja ríkistjórnina um svör eftir rannsókn miðilsins staðfesti komu Grimstone að kaupunum á Newcastle.

Newcastle United endaði í 11. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 49 stig. Ljóst er að liðið ætlar að gera mun betur á næsta ári og gæti farið svo að liðið verði farið að berjast um titla áður en langt um líður þökk sé moldríkum eigendum þess.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.