Fótbolti

Uppáhalds landsleikir Dagnýjar: „Allt gekk einhvern veginn upp“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dagný Brynjarsdóttir tæklar Önnu Blaesse í leik Þýskalands og Íslands í undankeppni HM haustið 2017. Hún segist sennilega aldrei hafa spilað betri landsleik en þá.
Dagný Brynjarsdóttir tæklar Önnu Blaesse í leik Þýskalands og Íslands í undankeppni HM haustið 2017. Hún segist sennilega aldrei hafa spilað betri landsleik en þá. getty/Matthias Hangst

Dagný Brynjarsdóttir segir að tveir landsleikir standi upp úr af þeim 101 sem hún hefur spilað. Hún skoraði í þeim báðum.

Dagný komst í hundrað landsleikja klúbbinn í apríl þegar hún lék og skoraði í 0-5 sigri Íslands á Hvíta-Rússlandi í Belgrad í undankeppni HM 2023. Hún lék svo landsleik númer 101 þegar Ísland vann afar mikilvægan sigur á Tékklandi, 0-1, í undankeppni HM nokkrum dögum síðar.

Blaðamaður Vísis ræddi við Dagnýju milli leikjanna gegn Hvíta-Rússlandi og Tékklandi og bað hana um að nefna eftirminnilegustu leikina á tólf ára ferli í landsliðinu. 

Rangæyingurinn segir að tveir landsleikir standi upp úr, gegn Hollandi í lokaumferð riðlakeppninnar á EM 2013 og gegn Þýskalandi í undankeppni HM 2017. Dagný skoraði eina mark leiksins gegn Hollendingum en með sigrinum komust Íslendingar í átta liða úrslit EM.

Hún skoraði svo tvö mörk í 2-3 sigri á Þýskalandi á útivelli. Það var fyrsti, og enn eini, sigur Íslands á sameiginlegu liði Þýskalands í A-landsleik karla og kvenna.

„Ég held ég geti ekki valið einn stóran leik, þeir eru tveir. Það er leikurinn gegn Hollandi á EM 2013 en það er ekki hægt að horfa framhjá því þegar við unnum Þjóðverja 2-3 á útivelli í undankeppni HM,“ sagði Dagný.

„Sá leikur var ótrúlega vel settur upp af þjálfurunum og vel framkvæmdur af okkur leikmönnunum. Allt gekk einhvern veginn upp í þeim leik. Þetta eru þeir tveir leikir sem standa mest upp úr.“

Klippa: Dagný um eftirminnilegustu landsleikina

Sem fyrr sagði komu tvö af 34 landsliðsmörkum Dagnýjar í sigrinum frækna á Þýskalandi fyrir tæpum fimm árum.

„Ég skoraði tvö og var með stoðsendingu. Þetta var örugglega einn af mínum betri landsleikjum,“ sagði Dagný sem er á leið á sitt þriðja Evrópumót með íslenska landsliðinu. Hún lagði upp eina mark Íslands á síðasta EM.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×