Fótbolti

Dagný: Væri ótrúlega gaman að ná Fríðu og skora fjörutíu landsliðsmörk

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dagný Brynjarsdóttir er með mark í um þriðja hverjum landsleik sem er ekki amaleg tölfræði fyrir miðjumann.
Dagný Brynjarsdóttir er með mark í um þriðja hverjum landsleik sem er ekki amaleg tölfræði fyrir miðjumann. vísir/bjarni

Dagný Brynjarsdóttir lék landsleikur númer hundrað þegar Ísland vann stórsigur á Hvíta-Rússlandi, 0-5, í undankeppni HM á fimmtudaginn. Hún hélt upp á áfangann með því að skora.

Dagný hefur skorað 34 mörk fyrir landsliðið og vantar aðeins þrjú mörk til að jafna Hólmfríði Magnúsdóttur í 2. sæti markalistans. Á toppi hans trónir Margrét Lára Viðarsdóttir með 79 mörk, eitthvað sem verður líklega aldrei slegið.

„Ég horfi ekkert endilega í það. Steini [Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari] er nýbyrjaður að láta mig spila aftarlega á miðjunni þannig ég fæ ekki mikið að vera í kringum teiginn nema í föstum leikatriðum og undanfarið hef ég nýtt það vel,“ sagði Dagný við blaðamann Vísis á hóteli landsliðsins í Prag í gær.

Hún viðurkennir þó að það kitli að ná sveitunga sínum, Hólmfríði sem lagði nýverið skóna á hilluna.

„Fríða er mjög góð vinkona mín og það yrði ótrúlega gaman að ná henni. Ég veit ég mun aldrei ná Margréti. Hún er með ruglaða tölfræði. En það væri kannski gaman að ná fjörutíu mörkum. Ég fer samt ekkert að grenja ef ég næ því ekki,“ sagði Dagný.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×