Fótbolti

Var tuttugu mínútum frá því að spila hundraðasta landsleikinn í nýjum skóm

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dagný Brynjarsdóttir er ein tólf fótboltakvenna sem hafa leikið hundrað landsleiki fyrir Ísland.
Dagný Brynjarsdóttir er ein tólf fótboltakvenna sem hafa leikið hundrað landsleiki fyrir Ísland. vísir/bjarni

Dagný Brynjarsdóttir lék sinn hundraðasta landsleik þegar Ísland rúllaði yfir Hvíta-Rússland, 0-5, í undankeppni HM á fimmtudaginn. Hún bjóst ekki endilega við að ná þessum áfanga og litlu munaði að hún þyrfti að spila tímamótaleikinn í nýjum takkaskóm.

„Ég var búin að bíða lengi eftir þessum leik. Við höfum spilað færri leiki vegna covid eftir að ég kom til baka eftir að ég átti son minn. Ég hélt ég myndi aldrei ná að spila hundraðasta leikinn. En svo kom loksins að honum og þá vantaði ferðatöskuna mína,“ sagði Dagný í samtali við Vísi á hóteli landsliðsins í Prag í gær.

„Ég var ekki með takkaskó, legghlífar eða neitt. Þannig ég þurfti að fara í búð og kaupa allt. Ég var að fara að spila hundraðasta landsleikinn ekki í neinu frá sjálfri mér. En síðan kom taskan tuttugu mínútum fyrir brottför í leik með allt dótið. Þannig ég skipti um allt. Ég var tilbúin í leikinn og var að fara út af herberginu þegar taskan kom. Ég var ekki búin að sjá fyrir mér að spila hundraðasta landsleikinn í öllu nýju“

Gerði þetta enn sætara að skora

Dagný spilaði því leikinn stóra í sínum skóm og með sínar legghlífar. Og tímamótaleikurinn hefði varla getað gengið betur hjá Dagnýju sem kom Íslandi á bragðið með sínu 34. landsliðsmarki.

„Þetta er eitthvað sem ég er búin að bíða eftir síðan ég var átján ára. Þetta var ótrúlega gaman og sætt að ná loksins hundraðasta leiknum. Ég hefði vart getað beðið um betri leik. Auðvitað hefði verið gaman að hafa áhorfendur en það var flott að skora og vinna,“ sagði Dagný.

„Auðvitað er ótrúlega gaman að skora og gerði þetta enn sætara. Mér er samt að mörgu leyti sama ef við vinnum. Þetta var mikilvægur leikur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×