Fótbolti

Dagný hélt að umbinn væri að grínast þegar hann sagði henni af áhuga West Ham

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dagný Brynjarsdóttir sem stuðningsmaður West Ham 2003 og leikmaður West Ham 2022.
Dagný Brynjarsdóttir sem stuðningsmaður West Ham 2003 og leikmaður West Ham 2022. getty/Justin Setterfield

Dagný Brynjarsdóttir fann að hún var ekki tilbúin að gefa atvinnumennskuna upp á bátinn þegar hún lék með Selfossi sumarið 2020. Hún hélt að umboðsmaðurinn sinn væri að grínast þegar hann sagði henni frá áhuga West Ham.

Dagný gekk í raðir Portland Thorns í Bandaríkjunum 2016. Hún eignaðist sitt fyrsta barn, soninn Brynjar, 2018 og sneri aftur til Íslands árið eftir þar sem hún átti erfitt að samtvinna fótboltann og fjölskyldulífið. Sumarið 2020 lék Dagný með Selfossi en samdi svo við West Ham í janúar 2021.

„Þegar ég kom heim þurfti ég að finna jafnvægið í því að vera mamma í fótbolta og hvernig við ætluðum að gera þetta. Árið 2020 var að mörgu leyti gott því það hafa ekki verið svona margar landsliðsstelpur í deildinni heima í mörg ár því aðrar deildir stoppuðu vegna covid,“ sagði Dagný í samtali við Vísi í Prag þar sem íslenska landsliðið dvaldi fyrir leikinn mikilvæga gegn Tékklandi í undankeppni HM. 

„Ég fékk góðan tíma til að hugsa þá og fann að ég var ekki alveg tilbúin að koma heim strax. Mér fannst ég enn eiga inni í fótboltanum, að bæta mig og ég gæti enn spilað með og á móti þeim bestu. Mér fannst ég þurfa að gera það meðan ég gæti. Þetta var ákveðið millibilsástand þar sem ég fann hvað ég vildi sjálf. Ég get ekki verið ánægðari með að hafa tekið ákvörðun um að flytja út til London með fjölskylduna og spila með West Ham.“

Klippa: Dagný um West Ham

Dagný er í þeirri öfundsverðu stöðu að spila með sínu uppáhaldsliði erlendis. Þegar hún var kynnt til leiks sem leikmaður West Ham var það gert með gömlum myndum af henni í búningi West Ham og líka af West Ham-köku úr níu ára afmælinu hennar.

Landsliðskonan hélt að umboðsmaðurinn hennar væri að fíflast þegar hann tjáði hennar að West Ham vildi fá hana.

„Þetta var að mörgu leyti merkilegt. Þegar umboðsmaðurinn hringdi fyrst og lét mig vita af áhuganum fannst mér það vera hálfgert grín, af öllum liðum,“ sagði Dagný.

„Þegar ég fór fyrst til þeirra voru þeir í fallbaráttu. Fyrst tók ég hálft tímabil með þeim og það var alveg erfitt en núna hefur gengið vel að mörgu leyti þótt við höfum tapað óþarfa stigum hér og þar. Það hefði getað hjálpað okkur að vera ofar í deildinni en að mörgu leyti gott tímabil, sérstaklega ef við horfum á tímabilið eru þetta miklar framfarir. Svo ætlum við að halda áfram að bæta okkur og styrkja liðið.“

Dagný hefur leikið alls leikið 25 leiki með West Ham í vetur og skorað sex mörk. Hamrarnir eru í 6. sæti ensku deildarinnar með 27 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×