Fótbolti

Segir að Aron falli enn undir ákvörðun stjórnar KSÍ

Sindri Sverrisson skrifar
Aron Einar Gunnarsson var landsliðsfyrirliði í áratug en hefur ekki spilað með landsliðinu síðan í júní í fyrra.
Aron Einar Gunnarsson var landsliðsfyrirliði í áratug en hefur ekki spilað með landsliðinu síðan í júní í fyrra. vísir/daníel

Arnar Þór Viðarsson segir að vegna nýsamþykktrar viðbragðsáætlunar stjórnar KSÍ hafi ekki komið til greina að velja Aron Einar Gunnarsson í nýjasta landsliðshópinn í fótbolta.

Tillagan sem stjórn KSÍ samþykkti á mánudaginn er svohljóðandi: „Stjórn KSÍ samþykkti að haft sé að leiðarljósi það meginviðmið, þegar mál einstaklinga eru til meðferðar hjá rannsóknar- eða ákæruvaldi og/eða samskiptaráðgjafa, vegna meintra alvarlegra brota, að þá skuli viðkomandi stíga til hliðar í hlutverki sínu hjá KSÍ á meðan meðferð máls stendur yfir. Það gildir jafnt um dómara, þjálfara, leikmenn, forystumenn, starfsmenn og aðra þá sem eru innan KSÍ.“

Aron Einar hefur ekki leikið með landsliðinu síðastliðið ár eftir ásakanir og síðar kæru fyrir meint kynferðisbrot í Kaupmannahöfn árið 2010.

Héraðssaksóknari vísaði fyrr í þessum mánuði málinu frá en Arnar landsliðsþjálfari segir að mál Arons falli engu að síður enn undir nýjan ramma KSÍ. Fleiri leikmenn falli hins vegar ekki undir þennan nýja ramma og hafi því allir aðrir komið til greina í landsliðshópinn sem valinn var í dag, hvað þessi mál snerti.

„Ég er að sjálfsögðu búinn að tala við marga af þeim leikmönnum sem eru ekki í hópnum. KSÍ gaf út fréttatilkynningu fyrr í dag með ákvörðun stjórnar. Fyrir mér er það þannig lagað léttir. Ég hef kallað eftir ramma frá því í byrjun september. Það hefur ekki verið auðvelt né skemmtilegt að þurfa að sigla framhjá ákveðnum hlutum lengi.

Núna er þessi rammi nánast kominn. Aron Einar fellur enn undir þessa ákvörðun stjórnar og ég sem þjálfari vinn eftir þeim vinnureglum sem mér eru gefnar. Ég er mjög feginn að þetta sé að komast í fastar skorður,“ sagði Arnar á blaðamannafundi í dag þar sem hann tilkynnti hópinn sem leikur gegn Albaníu, Ísrael og San Marínó í júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×