Enski boltinn

Man. United í fleiri daga á toppnum en Liverpool á tímabilinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo fagnar einu marka sinna með Manchester United liðinu á þessu tímabili.
Cristiano Ronaldo fagnar einu marka sinna með Manchester United liðinu á þessu tímabili. Getty/Naomi Baker

Liverpool var hársbreidd frá því að vinna enska meistaratitilinn en þrjú mörk Manchester City í lokin tryggðu liðinu sigur á Aston Villa og eins stigs forskot á Liverpool.

Liverpool endaði meðal annars 34 stigum á undan Manchester United sem varð að sætta sig við sjötta sætið á þessu tímabili.

Vissulega mikil vonbrigði fyrir United sem meðal annars tapaði tveimur innbyrðis leikjum sínum á móti Liverpool með samtals níu marka mun eða 0-5 og 1-5.

Það var hins vegar ein tölfræði sem var United í hag í samanburði við Liverpool og sú staðreynd er eflaust svolítið sár lestur fyrir stuðningsmenn Liverpool.

Liverpool átti auðvitað miklu betra tímabil en erkifjendur þeirra en þegar kom að því að vera á toppnum þá voru Old Trafford menn þeim fremri.

Manchester United var nefnilega þremur dögum lengur í toppsæti ensku úrvalsdeildarinnar á þessu tímabili heldur en Liverpool. United menn voru efstir í fjórtán daga.

Manchester United náði toppsætinu bæði eftir 5-1 sigur á Leeds United í fyrstu umferðinni sem og eftir 4-1 sigur á Newcastle í fjórða leik.

Liverpool sat aftur á móti í toppsætinu í aðeins ellefu daga á þessari leiktíð.

Ótrúleg staðreynd en kristallar vissulega það að Manchester City stakk af í byrjun móts. Liverpool var fjórtán stigum á eftir City í byrjun nýs árs og var næstum því búið að vinna upp muninn með flottum endaspretti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×