Enski boltinn

Leik­hús fá­rán­leikans: Sá um leik­greiningu Man United frá Moskvu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ralf Rangnick (lengst til hægri) ásamt aðstoðarmönnum sínum Ewan Sharp og Chris Armas.
Ralf Rangnick (lengst til hægri) ásamt aðstoðarmönnum sínum Ewan Sharp og Chris Armas. Visionhaus/Getty Images

Það hefur margt undarlegt gengið á hjá enska fótboltafélaginu Manchester United á undanförnum árum. Eftir að Ralf Rangnick tók tímabundið við sem þjálfari áður en hann myndi færa sig um set og verða ráðgjafi fóru hlutirnir einfaldlega úr böndunum.

Það gekk lítið sem ekkert upp hjá Manchester United á nýafstaðinni leiktíð. Síðasta sumar gerði stuðningsfólk félagsins sér vonir um að það myndi berjast á toppi töflunnar. Ole Gunnar Solskjær, þáverandi þjálfari, hafði fengið Raphael Varane, Jadon Sancho og Cristiano Ronaldo.

Ralf Rangnick á hliðarlínunni er Man United tapaði 4-0 gegn Brighton & Hove Albion.Manchester United

Sú von fauk fljótlega út um gluggann og Solskjær fékk sparkið fyrir áramót. Stuttu síðar var Ralf Rangnick ráðinn til sögunnar. Eftir það urðu hlutirnir enn undarlegri. Hann var ráðinn sem þjálfari út tímabilið en á meðan ætluðu forráðamenn félagsins að leita að nýjum manni í brúnna. Þegar sá kæmi yrði Rangnick ráðgjafi hans.

Þá urðu gríðarlegar breytingar á þjálfaraliði félagsins þar sem margir af samstarfsmönnum Solskjær hurfu á braut. Rangnick þurfti því að ráða nýtt fólk. Það var ekki um auðugan garð að gresja og ekki margir til í að mæta vitandi að þeir myndu mögulega aðeins endast fram á sumar.

Á endanum fékk Rangnick nýtt teymi inn með sér, þar á meðal maður að nafni Lars Kornetka. Sá steig aldrei fæti inn á Old Trafford og raunar ekki inn í Manchester-borg þar sem hann var búsettur í Moskvu.

Darren Fletcher, Rangnick og Armas með heyrnatólin frægu.Martin Rickett/Getty Images

Kornetka hafði áður starfað með Rangnick og sá um að leikgreina leiki Man United liðsins frá Moskvu. Til að koma upplýsingum áleiðis talaði hann við aðstoðarþjálfarann Ewan Sharp sem kom skilaboðunum á áfram til Chris Armas en þeir voru tengdir í gegnum fjarskiptabúnað á meðan leikjum stóð.

Leikhús Draumanna eins og Old Trafford var stundum kallað var í raun orðið að leikhúsi fáránleikans. Darren Fletcher, tæknilegur ráðgjafi liðsins – svipað hlutverk og Rangnick á að sinna á komandi leiktíð – var ávallt á hliðarlínunni líkt og hann væri þjálfari. Enginn virtist vita hver ætti að sinna hverju, innan vallar sem utan.

Til að toppa þetta allt var Manchester United, eitt stærsta íþróttafélag heims, með mann í Moskvu að senda skilaboð á bekk Man Utd á meðan leik stóð. Miðað við frammistöður liðsins undanfarnar vikur og mánuði mætti halda að hann hafi verið að horfa á kolvitlausa leiki.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×