Erlent

Lýgur því að Rússar hafi aldrei hótað notkun kjarnorkuvopna

Samúel Karl Ólason skrifar
María Zakharova, talskona utanríkisráðuneytis Rússlands.
María Zakharova, talskona utanríkisráðuneytis Rússlands. EPA/MAXIM SHIPENKOV

María Zakharova, talskona utanríkisráðuneytis Rússlands, hélt því fram í morgun að Rússar hefðu aldrei hótað notkun kjarnorkuvopna í tengslum við innrásina í Úkraínu. Hún skammaðist út í ráðamenn í Bandaríkjunum fyrir að halda því fram og sakaði þá um ábyrgðarleysi.

Hún hélt því fram að í stað þess að hóta notkun kjarnorkuvopna hefðu Rússar ávallt varað aðra við því að hóta notkun slíkra vopna, samkvæmt ríkismiðlinum RIA.

Zakharova er í stuttu máli sagt að ljúga. Háttsettir rússneskir stjórnmála- og embættismenn hafa ítrekað hótað notkun kjarnorkuvopna á undanförnum mánuðum og það hefur sömuleiðis ítrekað verið gert í ríkisreknum sjónvarpsstöðvum Rússlands og dagblöðum.

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, er meðal þeirra sem hafa hótað notkun kjarnorkuvopna, þó hann hafi gert það undir rós.

Hótaði alvarlegustu afleiðingum sögunnar

Í ræðu sem hann hélt þann 24. febrúar þegar hann tilkynnti innrás Rússa í Úkraínu, sagði hann að ef einhver myndi reyna að standa í vegi Rússa myndi það hafa alvarlegri afleiðingar en hefðu áður sést í heiminum, sem er augljós hótun notkun kjarnorkuvopna.

Þremur dögum síðar lýsti hann því opinberlega yfir að hann hefði sett þann herafla sem heldur utan um kjarnorkuvopn Rússlands í aukna viðbragðsstöðu.

Dmitry Medvedev, fyrrverandi forseti og fyrrverandi forsætisráðherra Rússlands, sem situr nú í þjóðaröryggisráði landsins, sagði í mars að Rússar gætu skotið kjarnorkuvopnum á andstæðinga sína að fyrra bragði. Það væri réttur Rússlands.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, lýsti því yfir undir lok aprílmánaðar að hættan á kjarnorkustríði vegna innrásarinnar í Úkraínu væri mikil. Ekki væri hægt að vanmeta hana og líkti hann ástandinu við Kúbu-deiluna árið 1962, að því leyti undanskildu að nú væru fáar reglur um kjarnorkuvopn í gildi.

Sýndi myndband af Bretlandseyjum sökkva

Svo er vert að taka fram að í mars sýndi einn þáttastjórnandi ríkisrekinnar sjónvarpsstöðvar tölvuteiknað myndband sem sýndi mögulega kjarnorkuvopnaárás Rússa gegn Bretum og hvernig Rússar notuðu kjarnorkuvopn til að sökkva Bretlandseyjum.

Fyrr í þessari viku gaf sami maður í skyn að aðild Finnlands og Svíþjóðar að Atlantshafsbandalaginu gæti endað með kjarnorkuárásum á ríkin.

Sá þáttastjórnandi, sem heitir Dmitry Kiselyov og er sagður náinn bandamaður Kreml, sagði að Bretar ættu ekki að leika sér að Rússum. Það þyrfti bara eina eldflaug til að sökkva eyjunum. Hann hefur einni sagt að Rússar gætu gert Bretlandseyjar að geislavirkri eyðimörk.

Margarita Simonyan, ritstjóri ríkismiðilsins RT, sagði þar að auki í síðasta mánuði að líklegasta útkoman í innrás Rússa í Úkraínu væru kjarnorkustríð. Hún sagði að miðað við það sem hún vissi um „leiðtoga okkar“ [Pútín] myndu Rússar frekar nota kjarnorkuvopn en tapa í Úkraínu.

Vladimir Solovyov, sem var í sama þætti, sagði það þó í raun vera í lagi, því Rússar myndu fara til himnaríkis á meðan allir aðrir myndu bara drepast.


Tengdar fréttir

Rússar sagðir hafa áhyggjur af framferði hermanna þeirra í Maríupól

Rússneskir embættismenn eru sagðir hafa áhyggjur af því að hersveitir Rússa í Maríupól hafi og séu að fara verulega illa með íbúa borgarinnar. Það muni gera Rússum erfiðara að kveða niður mótspyrnu í borginni og koma niður á áróðri þeirra um að Rússar hafi frelsað borgin.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.