Íslenski boltinn

Þrír úrskurðaðir í bann í Bestu-deildinni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Kristall Máni í þann mund að fá reisupassann.
Kristall Máni í þann mund að fá reisupassann. Vísir/Hulda Margrét

Aga- og úrskurðarnefnd Knattspyrnusambands Íslands, KSÍ, hefur úrskurðað þrjá leikmenn Bestu-deildar karla í eins leiks bann.

Leikmennirnir þrír eru þeir Kristall Máni Ingason, leikmaður Víkings, Atli Hran Andrason, leikmaður ÍBV og Rúnar Þór Sigurgeirsson, leikmaður Keflavíkur.

Kristall Máni fær bann eftir að hann fékk beint rautt spjald fyrir olnbogaskot í 3-0 tapi Víkings gegn Breiðabliki á lokamínútu uppbótartíma leiksins. Hann mun því missa af leik Víkings gegn Val næstkomandi sunnudag.

Atli Hrafn Andrason fékk beint rautt spjald fyrir glæfralega tæklingu í 2-1 tapi ÍBV gegn KR þarsíðustu helgi. Atli hefur nú þegar tekið út leikbann sitt, en það gerði hann í 2-0 tapi ÍBV gegn FH síðastliðinn sunnudag.

Þá er Rúnar Þór úrskurðaður í bann vegna fjögurra gulra spjalda. Hann er fyrsti leikmaðurinn á tímabilinu til að ná þeim áfanga, en það tók hann aðeins sjö leiki að krækja sér í fjögur gul spjöld. Rúnar missir því af leik Keflvíkinga gegn FH næstkomandi sunnudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×