Erlent

Vaktin: Fram­tíðin velti á því að stríðið verði sem styst

Hólmfríður Gísladóttir, Kjartan Kjartansson, Samúel Karl Ólason og Árni Sæberg skrifa
Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu.
Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu. AP/Forsetaembætti Úkraínu

Liz Truss, utanríkisráðherra Bretlands, segir Vladimir Pútín Rússlandsforseta vera að niðurlægja sjálfan sig á hinu alþjóðlega sviði og að tryggja verði að ósigur hans í Úkraínu verði með þeim hætti að hann hagnist ekki á yfirgangssemi sinni.

Fréttastofa Vísis, Stöðvar 2 og Bylgjunnar fylgist með þróun mála í Úkraínu í allan dag.

Helstu vendingar:

  • Kyrylo Budanov, yfirmaður leyniþjónustu hers Úkraínu, segir að vendipunktur verði í stríðinu við Rússa í ágúst og að því verði lokið fyrir árslok.
  • Réttarhöld hefjast í dag yfir hinum 21 árs Vadim Shysimarin, sem hefur verið ákærður fyrir að hafa myrt 62 ára mann í þorpinu Chupakhivka hinn 28. febrúar sl. Shysmarin er fyrsti rússneski hermaðurinn sem er dreginn fyrir dóm vegna stríðsglæpa í Úkraínu.
  • Rússar hafa hótað því að skrúfa fyrir gasflutninga til Finnlands, eftir að forseti og forsætisráðherra Finna sendu frá sér yfirlýsingu í gær þar sem þeir sögðu Finna nauðsynlega þurfa að ganga í Atlantshafsbandalagið sem allra fyrst.
  • Sendifulltrúi Bandaríkjanna við Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu segir þúsundir Úkraínumanna hafa verið flutta til Rússlands í nokkurs konar „flokkunarstöðvar“, þar sem þeir hafa sætt „harkalegum yfirheyrslum“.
  • Þriggja daga fundur utanríkis- og landbúnaðarráðherra G7-ríkjanna stendur nú yfir í Þýskalandi, þar sem umræðuefnið eru aðgerðir til að koma mikilvægum kornvörum frá Úkraínu.
  • Sendiráð Rússlands í Lettlandi hefur sent frá sér harðorða yfirlýsingu um ákvörðun þarlendra stjórnvalda um að aflétta vernd sovéskra minnisvarða. Rússar segja um að ræða sviksamlega og óréttlætanlega ákvörðun, sem sé hvorki byggð á siðferðilegum né löglegum forsendum.

Hér má finna vakt gærdagsins.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.