Íslenski boltinn

Berst fyrir EM-sætinu í Mosó

Sindri Sverrisson skrifar
Auður Sveinbjörnsdóttir Scheving (til vinstri) var valin í íslenska landsliðið í fyrra.
Auður Sveinbjörnsdóttir Scheving (til vinstri) var valin í íslenska landsliðið í fyrra. vísir/bára

Nýliðar Aftureldingar sóttu sér mikinn liðsstyrk á lokadögum félagaskiptagluggans, úr toppliðum landsins, og mæta með sterkari hóp í næstu leiki í Bestu deild kvenna í fótbolta.

Alls hafa fjórir leikmenn mætt í Mosfellsbæinn í þessari viku til að spila með kvennaliði Aftureldingar. Tveir þeirra koma að láni frá Íslandsmeisturum Vals en það eru markvörðurinn Auður Sveinbjörnsdóttir Scheving og kantmaðurinn Sólveig Jóhannesdóttir Larsen.

Auður er í baráttunni um eina af markvarðastöðunum í íslenska landsliðshópnum sem fer á EM í júlí eftir að hafa staðið sig vel með ÍBV í fyrra. Hún sat hins vegar á varamannabekknum hjá Val nú í upphafi leiktíðar eftir að hafa glímt við meiðsli í vetur en fær nú tækifæri til að sýna sig og sanna í Aftureldingu.

Afturelding fékk einnig hina belgísku Alexöndru Soree að láni frá bikarmeisturum Breiðabliks og svo hina spænsku Söru Jimenez. Hún er 22 ára miðjumaður sem leikið hefur með Villarreal, Cadiz, Aldaia og Onda.

KR einnig með nýjan markvörð

KR-konur mæta einnig með öflugri sveit í næsta leik sinn en félagið fékk leikheimild fyrir fjóra leikmenn rétt fyrir lok félagaskiptagluggans. 

Markvörðurinn Cornelia Sundelius kom frá Svíþjóð og þær Rasamee Phonsongkham, sem síðast lék með Perth Glory í Ástralíu, og hin bandaríska Marcy Barberic fengu loksins félagaskipti eftir að tilkynnt var um komu þeirra fyrr á árinu. Þá kom hin unga Ólína Ágústa Valdimarsdóttir að láni frá Stjörnunni.


Besta deild kvenna er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.