Íslenski boltinn

„Blikar gera það sem maður hefur ekki séð þá gera síðustu tvö ár“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Breiðabliksliðið lítur rosalega vel út í byrjun tímabilsins.
Breiðabliksliðið lítur rosalega vel út í byrjun tímabilsins. Vísir/Hulda Margrét

Frábær byrjun Blika var til umræðu í Stúkunni í gær eftir að Blikar tryggðu sér 3-2 sigur á Stjörnunni eftir að hafa misst niður 2-0 forystu.

„Við höfum verið að tala um þessi þroskamerki á Blikaliðinu, aðlögunarhæfni og annað. Það hlýtur að vera erfitt annað en að vera skotinn í þessu Blikaliði eftir þessa fyrstu fimm leiki,“ sagði Henry Birgir Gunnarsson, umsjónarmaður Stúkunnar í gær.

„Þeir líta best út af öllum liðunum. Valur er að vinna sína leiki líka en þeir eru að gera það öðruvísi,“ sagði Lárus Orri Sigurðsson, sérfræðingur í Stúkunni.

„Blikar hafa litið mjög vel út og eru að gera það sem maður hefur ekki séð þá gera síðustu tvö ár. Þeir eru aðeins að stíga frá sinni hugmyndafræði til þess að ná í sigrana,“ sagði Lárus Orri.

„Þú vinnur ekkert mótið með því að vera bara með plan A. Þú verður að vera með plan B líka,“ sagði Lárus.

„Tilfinningin sem maður fær þegar maður er að horfa á Blikana er að það er eldur inn í þeim. Það sem kveikti eldinn er auðvitað þessi svekkjandi endir á tímabilinu í fyrra. Þetta er lið ‚on a mission' í ár,“ sagði Henry Birgir.

„Þeim finnst þeir þurfa að bæta það sem fór úrskeiðis undir lok tímabils í fyrra. Framganga þeirra í upphafi móts segir manni ekkert annað en að þeir séu á góðri leið með það. Ég er mjög hrifinn af þessum þroskamerkjum og þessum skrefum sem þeir hafa verið að taka. Það er ekkert annað sem bendir til þess en að þetta verði liðið til að elta næstu vikurnar og lang inn í mótið.,“ sagði Atli Viðar Björnsson, sérfræðingur í Stúkunni.

Það má sjá umræðuna um Blika í myndbandinu hér fyrir neðan.

Klippa: Stúkan: Blikar stíga aðeins frá sinni hugmyndafræði til þess að ná í sigrana



Fleiri fréttir

Sjá meira


×