Erlent

„Finnland verður að sækja um aðild að Nató án tafar“

Hólmfríður Gísladóttir og Samúel Karl Ólason skrifa
Boris Johnson ræddi við Sauli Niinisto í gær og hét því að koma Finnum og Svíum til aðstoðar ef öryggi þeirra yrði ógnað í umsóknarferlinu.
Boris Johnson ræddi við Sauli Niinisto í gær og hét því að koma Finnum og Svíum til aðstoðar ef öryggi þeirra yrði ógnað í umsóknarferlinu. AP/Frank Augstein

Stjórnvöld í Finnlandi hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þau segjast vonast til að nauðsynleg skref verði tekin næstu daga til að greiða fyrir formlegri umsókn Finna að Atlantshafsbandalaginu.

Í yfirlýsingunni segir að á síðustu vikum hafi mikilvægar umræður um mögulega aðild Finna að Nató átt sér stað og nú, þegar tími sé kominn til að taka ákvörðun, vilji ráðamenn koma afstöðu sinni á framfæri.

„Aðild að Nató myndi styrkja öryggi Finnlands. Sem aðildarríki myndi Finnland styrkja allt bandalagið. Finnland verður að sækja um aðild að Nató án tafar,“ segir í yfirlýsingunni, sem er undirrituð af forseta og forsætisráðherra Finnlands.

Fréttin var uppfærð klukkan 7.18.

Gert er ráð fyrir að tímabilið frá umsókn til aðildar verði fremur skammt en Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hefur heitið því að Bretar muni í millitíðinni grípa til varna fyrir ríkin ef þeim verður ógnað.

Vladimir Pútín Rússlandsforseti, sem hefur meðal annars réttlætt innrás Rússa í Úkraínu með því að vísa til „útþenslustefnu“ Nató, hefur ítrekað varað Finna og Svía við því að sækja um aðild og hótað „alvarlegum hernaðarlegum og pólitískum afleiðingum“.

Sauli Niinisto, forseti Finnlands, var spurður að því í gær hvort aðildarumsókn Finna myndi ögra Rússum. „Mitt svar væri: Þú varst valdur að þessu. Líttu í spegilinn,“ svaraði forsetinn.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði í gær að eftir innrás Rússa í Úkraínu og samkomulag þeirra við Kína væri Rússland helsta ógnin sem steðjaði að heiminum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.