Erlent

Vaktin: Þjóðverjar búa sig undir að Rússar skrúfi fyrir gasið

Hólmfríður Gísladóttir, Samúel Karl Ólason, Eiður Þór Árnason og Bjarki Sigurðsson skrifa
Robert Habeck, efnahags- og orkumálaráðherra Þýskalands.
Robert Habeck, efnahags- og orkumálaráðherra Þýskalands. epa/FILIP SINGER

Vladimir Pútín Rússlandsforseti flutti í morgun ræðu sína á Rauða torginu í tilefni sigurs Sovétmanna á nasistum í seinni heimstyrjöldinni. Þvert á væntingar margra var fátt um yfirlýsingar í ræðunni og engar stórar fregnir af fyrirætlunum Rússa í Úkraínu.

Fréttastofa Vísis, Stöðvar 2 og Bylgjunnar fylgist með þróun mála í Úkraínu í allan dag.

Helstu vendingar:

  • Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, skammaði nýverið þjóðaröryggisráðgjafa sína vegna upplýsingaleka. Fjölmiðlar vestanhafs sögðu ítrekað frá því hvaða upplýsingum Bandaríkjamenn hafa verið að deila með Úkraínumönnum.
  • Mikhail Kasyanov, sem var fyrsti forsætisráðherra Vladimírs Pútín, forseta Rússlands, segir að ræða forsetans á Sigurdeginum í morgun sýni að hann viti að stríð hans í Úkraínu sé misheppnað. Hann sagði Pútín í vanda og taldi að nú væri „upphafið að endinum“ fyrir Pútín og yfirráð hans í Rússlandi.
  • Rauðri málningu var skvett sendiherra Rússlands í Póllandi nú fyrir skömmu. Það var gert á athöfn þar sem hann ætlaði að leggja blómvönd við minnisvarða sovésks hermannsí Varsjá vegna hátíðarhaldanna í dag.
  • Rússneska fréttastofan RIA hefur eftir Kirill Stremousov, sem er einhvers konar leiðtogi hjá stjórn aðskilnaðarsinna í Kherson, að það standi ekki til að efna til atkvæðagreiðslu um sjálfstæði á svæðinu. Hins vegar sé stefnt að því að innlima eins stóran hluta þess og mögulegt er í Rússland.
  • Verulegur samdráttur hefur orðið í innflutningi Rússa á vörum frá Kína en hins vegar jókst innflutningur Kínverja á rússneskum vörum um 56,6 prósent frá fyrra ári í apríl.
  • Josep Borrell, æðsti erindreki Evrópusambandsins í utanríkis- og varnarmálum, segir í samtali við Financial Times að bandalagið ætti að íhuga að gera erlendan gjaldeyrisforða Rússa, sem hefur verið frystur, upptækan til að kosta enduruppbyggingu Úkraínu eftir stríð.
  • BBC segir Ben Wallace, varnarmálaráðherra Breta, munu líkja aðgerðum stjórnar Pútín við framgöngu nasista í erindi sem hann mun halda í dag.
  • Emmanuel Macron Frakklandsforseti mun funda með Olaf Scholz, kanslara Þýskalands, í Berlín í dag og er sagður munu flytja ræðu í kjölfarið.

Hér má finna vakt gærdagsins.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.